Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir Vesturlönd ábyrg fyrir fæðuóöryggi, ekki Rússa

Mynd með færslu
Maria Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins. Mynd: EPA
Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, segir yfirvofandi hungursneyð og fæðuóöryggi í heiminum ekki stafa af innrásinni í Úkraínu, heldur af viðskiptaþvingunum Vesturlanda gegn Rússum. Hún sagði sífellt fleiri sérfræðinga vera á sama máli um að Vesturveldin ögruðu með aðgerðum sínum og bæru ábyrgð á eyðileggingu.

Vesturlönd hafi verið skammsýn og gert kerfisbundin mistök þegar kemur að landbúnaði. Zakharova sagði þær efnahagsþvinganir sem Rússar hefðu verið beittir  bæði ólöglegar og vanhugsaðar.

Þriðjungur alls hveitis kemur frá Rússlandi og Úkraínu

Úkraínskar hafnarborgir hafa verið í herkví undanfarna mánuði vegna innrásar rússneska hersins og geta Úkraínumanna til að flytja út hveiti og önnur matvæli því verulega skert. Þá hafa Rússar verið sakaðir um að stela úkraínsku korni.

Ríkin tvö rækta um þriðjung alls hveitis í heiminum. Fæðuöryggi hefur því minnkað umtalsvert frá upphafi innrásar.

Rússar nýti sér matarskort í áróðursstríði

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, gefur lítið fyrir þessar ásakanir Rússa og segir að þvinganirnar beinist ekki gegn matvælum og bann við komu rússneskra skipa í evrópskar hafnir nái ekki til flutninga matvæla. Stríð Pútíns sé eina ástæða matarskortsins.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, tekur í sama streng en bætir við að Rússar sé vísvitandi að reyna að afvegaleiða umræðuna og notfæra sér matarskort í áróðursstríði.