„Maður grét á hverjum degi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Maður grét á hverjum degi“

21.06.2022 - 17:00

Höfundar

„Þetta var eitthvað það erfiðasta sem við höfum nokkurn tímann gert,“ segir Elínborg Una en þær María Jóngerð kunna hvorugar að syngja svo þær ákváðu að taka málin í eigin hendur og skelltu sér á söngnámskeið. Í sumar ætla þær að syngja lagið Shallow hundrað sinnum fyrir fólk úti um allan bæ og skrásetja upplifanir þess.

Vinkonurnar Elínborg Una Einarsdóttir og María Jóngerð Gunnlaugsdóttir ætla að flytja lagið Shallow hundrað sinnum fyrir áhorfendur í sumar. Lagið sungu Lady Gaga og Bradley Cooper svo eftirminnilega í kvikmyndinni A Star is Born en ólíkt stórstjörnunum þá kunna Elínborg og María ekki að syngja.  

Elínborg og María ræddu við Andra Frey Viðarsson og Hrafnhildi Halldórsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 um þetta verkefni og hver hugmyndin er á bak við það. 

„Það erfiðasta sem við höfum báðar gert“ 

Þær Elínborg og María eru saman í bekk í Listaháskóla Íslands á sviðshöfundabraut. Þær komust að því að hvorug þeirra kann að syngja. „Við vorum báðar á þeim stað að okkur fannst bara hryllilega erfitt að syngja fyrir framan nokkurn mann og bara fyrir framan okkur sjálfur líka,“ segir Elínborg. Þetta fannst þeim stöllum ekki nógu gott og ákváðu því að skella sér á söngnámskeið í byrjun árs sem Björk Jónsdóttir kenndi.  

„Sem var örugglega bara eitthvað það erfiðasta sem við báðar höfum nokkurn tímann gert,“ segir Elínborg. „Maður grét á hverjum einasta degi,“ bætir María við.  

Þær segja að stærsti sigurinn hafi ekki verið að læra að syngja vel heldur að geta staðið fyrir framan hóp af fólki og sungið af einlægni. „Án þess að það sé eitthvað stórkostlegt heldur bara að komast yfir þennan þröskuld að leyfa sér að taka þetta pláss,“ segir Elínborg. 

Sækja styrk í hvor aðra  

Á námskeiðinu lærðu þær að syngja lagið Shallow en þær segjast varla geta haldið því fram að það hafi verið sitt uppáhaldslag þegar þær byrjuðu. „En núna er það í miklu uppáhaldi,“ segir María og hlær. „Þetta er náttúrulega bara lag lífs okkar núna,“ bætir Elínborg við. 

„Þetta var reyndar ekki fyrsta lagið sem við reyndum að syngja en okkur tókst betur til í þessu lagi en mörgum öðrum,“ segir Elínborg. Lagið sé svo góður dúett og geta þær sótt mikinn styrk í hvor aðra meðan á flutningi stendur. 

Sérstök upplifun að syngja fyrir framan vinnuskólann 

Verkefnið er á vegum Listahóps Hins Hússins og gengur út á að þær syngja lagið hundrað sinnum í sumar fyrir mismunandi hópa og fá hlustendur til að skrifa niður á blað hvað þau upplifðu eftir flutninginn.  

„Við erum smá að rannsaka hvort það hafi áhrif á hvernig þú upplifir að við kunnum ekki að syngja og erum að syngja hérna beint fyrir framan ykkur,“ segir María. Þær vilji vita hvort það hafi áhrif hvaðan fólk komi og hvar það er staðsett þegar þær flytja lagið. „Við sáum svo mikinn mun þegar við sungum þetta í Listaháskólanum og ákváðum svo að syngja þetta í Háskólanum í  Reykjavík. Þá fengum við svo mismunandi viðbrögð frá fólki að okkur langaði bara að leggja í enn þá stærri rannsókn.“ 

„Þetta er fyrst og fremst rannsókn,“ segir Elínborg. Þær hafa ferðast um allar trissur og sungið í líkamsrækt og sundlaugum, Kringlunni og niðri í bæ og hafa fengið gríðarlega mismunandi svör. Einnig fóru þær og tóku lagið fyrir þrjá mismunandi vinnuskólahópa. „Það var alveg sérstök upplifun að syngja fyrir vinnuskólann,“ segir María en þær sungu fyrir rúmlega sextíu unglinga samanlagt. 

„Við verðum svo stressaðar“ 

Hvað verður síðan gert við niðurstöður rannsóknarinnar? „Við ætlum að gera innsetningu með öllum miðunum því við erum að fá alveg mörg hundruð miða til okkar,“ segir Elínborg. Þær ætla að safna miðunum saman og reyna að finna sameiginleg þemu og komast að því hvað gæti haft áhrif á upplifun hlustenda.  

„Við ætlum að reyna að gera einhverja svona pínu sýningu út frá því en okkur langar líka til að gera skýrslu,“ segir Elínborg. María bætir við að þær haldi einnig dagbók utan um sínar eigin upplifanir fyrir hvern flutning. „Því við verðum svo stressaðar,“ bætir hún við. Dagbókin verður þá hluti af lokasýningunni á lokahátíð Listahóps Hins Hússins sem haldin verður í lok sumars.

Rætt var við Elínborgu Unu Einarsdóttur og Maríu Jóngerð Gunnlaugsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Viðtalið í heild sinni og sönginn má hlusta á í spilaranum hér að ofan.