Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hálendisvegir opnaðir seinna en undanfarin ár

21.06.2022 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Snjóþungur vetur og kalt vor á hálendinu er ástæða þess að hálendisvegir eru opnaðir seinna en undanfarin ár. Þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni segir að þeir verði opnaðir einn af öðrum næstu daga. Hann hvetur fólk til að fylgjast með hálendiskortinu.

Töluverð aurbleyta og snjór víða

Þessa dagana bíða margir ferðaþyrstir landsmenn og gestir eftir að vegir um hálendið verði opnaðir fyrir umferð. Það ræðst í grunninn af veðurfari og snjóalögum en þegar frost er farið úr vegunum og ekki hætta á skemmdum þykir óhætt að opna fyrir umferð. Þrátt fyrir milda tíð síðustu daga er enn töluverð aurbleyta víða á hálendinu og flestar leiðir lokaðar.

Seinna en venjulega

Magnús Ingi Jónsson er þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni. „Það er náttúrlega töluvert mikill snjór á flestum leiðum og það er opnað seinna en venjulega. Það er búið að opna yfir Kjöl, það er svona eina leiðin sem er búið að opna í heild. Svo er búið að opna hluta af Arnarvatnsheiði, bæði að norðanverðu og eins að sunnanverðu en ekki alveg yfir. Það er búið að taka akstursbannið af Sigölduleiðinni, Fjallabaki nyrðra á leiðinni frá Sigöldu og inn að Landamannalaugum en það er hins vegar ekki búið að opna alveg,“ segir Magnús.

Hvenær reiknarðu með að þessar helstu leiðir verði orðnar færar?

„Eins og þessi leið, inn í Landmannalaugar sem er þessi helsta leið sem er verið að spyrja okkur um. Við reiknum með henni næstu helgi.“

Hvetur fólk til að fylgjast vel með stöðunni 

Hann hvetur alla vegfarendur um hálendið til að fylgjast vel með ferðakortinu á vef Vegagerðarinnar. „Við uppfærum það um leið og við fáum einhverjar upplýsingar. Svo má alltaf hafa samband við okkur í síma 1777.“