„Gaman að sjá hvaða stað við erum komin á"

Mynd: RÚV / RÚV

„Gaman að sjá hvaða stað við erum komin á"

21.06.2022 - 15:58
Ungstirnið Sveindís Jane er nýbakaður Þýskalandsmeistari með félagsliði sínu Wolfsburg. Hún ræddi við Helgu Margréti Höskuldsdóttir á opinni æfingu A landsliðs kvenna í gær um frábæra stemningu í hópnum, hversu hratt kvennaboltinn er að rísa og möguleika Íslands á EM.

Framherjinn Sveindís Jane er í góðum gír fyrir EM kvenna sem fer fram í sumar á Englandi. Hefur hún skorað 6 mörk í 16 landsleikjum hingað til og vonast þjóðin eftir að hún bæti fleiri mörkum við í sumar.

Aðspurð hvaða tilfinningarnar koma upp í aðdraganda móts stóð ekki á svörum. „Spenna, það er það fyrsta sem kemur upp. Ógeðslega gaman að hitta allar stelpurnar aftur – ég er bara ógeðslega spennt.“ Henni leiðist raunar alls ekki að koma í landsliðsverkefni, „Þetta er frábær hópur. Ótrúlegar skemmtilegar stelpur og ógeðslega gaman að vera kominn aftur og vera með þeim. Maður er alltaf jafn spenntur að koma heim í landsliðsverkefni.“

En hvað er Sveindís búin að taka sér fyrir hendur síðan hún varð Þýskalandsmeistari?

„Ég tók mér eina og hálfa viku í frí. Svo kom ég bara til Íslands eftir þetta frí og byrja að æfa í þesa viku.“

Sveinndís er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót en hún er hvergi bangin.

„Ég finn engan mun eiginlega akkúrat núna. Þetta verður örugglega lengri verkefni heldur en venjulega. Ég er spennt fyrir því, það er svo gaman að vera með landsliðinu. Ég vil bara helst vera eins lengi og hægt er! En tilfinningin er bara svipuð og þegar ég kem í venjulegt landsliðsverkefni.“

Hún virðist litlar áhyggjur hafa af andstæðingunum en ætlar þess í stað einblína á frammistöðu sína og íslenska liðsins. „Maður veit hvar þau standa á blaði. Ég hef voða lítið verið að skoða vídjó og þannig. Ég bara veit að við eigum fulla möguleika á að komast upp úr þessum riðli ef við hittum á okkar dag. Þá er allt opið.

Varðandi stuðninginn og meðbyrinn með landsliðinu metur Sveindís stöðuna virkilega jákvæða og getur ekki beðið eftir mótinu í sumar. „Það finnst öllum ótrúlega gaman að fylgjast með okkur. Maður sér hversu hratt kvennaboltinn er koma upp og það eru allir til í að styðja okkur og fylgjast með og það er ótrúlega gaman. Svo verða fullir vellir á Englandi þannig það er ótrúlega gaman að sjá hvaða stað við erum komin á með kvennaboltann.

Íslenska liðið hefur nú komið saman til æfinga fyrir mótið en liðið heldur síðan til Póllands á mánudeginum 27. júní og leikur vináttuleik við Pólverja í Poznan 29. júni. Síðar færir hópurinn sig yfir til Þýskalands 1. júlí og flýgur loks til Englands 6. júlí.

RÚV sýnir beint frá EM kvenna í sumar.