Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fríverslunarviðræður við þrjú lönd á oddi á EFTA fundi

21.06.2022 - 00:13
Ísland lauk formennsku sinni í EFTA á ráðherrafundi í Borgarnesi í dag. Fríverslunarviðræður við Taíland voru settar af stað á ný eftir sextán ára biðstöðu.

Það var annríki í Borgarnesi á ráðherrafundi EFTA-landanna þar sem Ísland hefur gegnt formennsku síðasta árið. 

Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagði margt á döfinni.

„Það er bæði framtíð EFTA og við erum með sérstaka umræðu um Úkraínu og stöðuna þar. Hvað EFTA hefur gert og getur gert til viðbótar til að sýna stuðning við Úkraínu. Við erum hérna að hefja fríverslunarviðræður við bæði Kósóvó og Taíland. Við erum með fríverslunarviðræður við Moldóvu alveg á lokametrunum.“ 

Viðræður um fríverslunarsamning á milli EFTA og Taílands eru þar með endurvaktar en þær hafa verið í biðstöðu frá 2006. 

„Ef okkur tekst að ljúka þessum fríverslunarviðræðum þá eru í raun EFTA ríkin fyrsti aðilinn sem þau gera fríverslunarsamning við innan Evrópu. Þannig að það verða mikil tímamót og ánægjulegt að það hafi náðst að blása lífi í þessar viðræður að nýju,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Jurin Laksanawisit, varaforsætisráðherra og viðskiptaráðherra Taílands býst við góðum niðurstöðum úr samningaviðræðunum þar. Landslagið í viðskiptum á milli landanna muni gjörbreytast og efnahagur Taílands batna.

„Markmiðið er að auka verslunarvirði okkar. Á síðasta ári var virðið 7,5 milljarðar Bandaríkjadala og þegar fríverslunarsamningurinn er í höfn mun það hækka tölurnar verulega,“ segir hann.

Fundurinn markar jafnframt lok formennsku Íslands í EFTA og Liechtenstein tekur við keflinu.