Flýr frá Úkraínu með stjúpson sem fer í nám á Akureyri

21.06.2022 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslendingur sem býr í Austur-Úkraínu hefur ákveðið að koma heim til Íslands með úkraínskri konu sinni og stjúpsyni sem hefur fengið inni í Háskólanum á Akureyri og bíður eftir tilskildum leyfum til að fara úr landi.

Tæplega viku ferðalag

Karl Þormóðsson, sem býr í borginni Zhaporozhye í austanverðri Úkraínu, ásamt úkraínskri eiginkonu og stjúpsyni leggur upp í langt ferðalag á föstudaginn til að flýja borgina. Að keyra alla leið til Danmerkur í gegnum Rúmeníu. „Ég áætla svona fimm til sex daga í það en um leið og maður er kominn út úr landinu þá svona slaknar á manni stressið,“ segir Karl sem var ó óðaönn að pakka niður í töskur þegar fréttastofa talaði við hann. 

Ertu eitthvað óttasleginn fyrir þetta ferðalag?

„Nei nei ekki svo.  Ástæðan fyrir því að ég fer í gegnum Rúmeníu en ekki Pólland er sú að það er svona sirka fimm tímum styttra að keyra út úr landinu. Maður veit ekki hvað maður fær mikið af bensíni á leiðinni.“

Sjá einnig: „Forréttindi að fá að vera hérna og geta lagt smá lið“

Stjúpsonurinn á leið í nám á Akureyri

Karl og konan hans hafa frá því að stríðið braust út haldið til í borginni. Hann hefur nýtt tímann vel, farið um borgina og safnað mat, lyfjum og öðrum nauðsynjum fyrir vini og kunningja sem ekki geta verið á ferli. 

„Aðal vandamálið sem við höfum verið í er að koma stjúpsyni mínum úr landi. En núna er hann búinn að fá skólavist á Íslandi, í Háskólanum á Akureyri. Hann kemur þá vonandi kannski í endann á júlí eða ágústbyrjun. Það er hægt að fá undanþágu af því að hann er á þessum aldri, sem sagt karlmenn á aldrinum 18 til 63 ára mega ekki fara úr landi nema með vissum skilyrðum og eitt af skilyrðum er að fara í framhaldsnám erlendis.“

Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri