Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðræðunum ekki lokið fyrir leiðtogafund NATO

20.06.2022 - 17:32
In this photo made available by the Turkish Presidency, Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaks to the media after Friday prayers, in Istanbul, Turkey, Friday, May 13, 2022. Erdogan said Friday that his country is "not favorable" toward Finland and Sweden joining NATO, indicating that Turkey could use its status as a member of the Western military alliance to veto moves to admit the two countries. (Turkish Presidency via AP)
Erdogan forseti, ræðir við fréttamenn í Istanbúl. Mynd: AP - Forsetaembætti Tyrklands
Tyrklandsstjórn segir að viðræðum við Finna og Svía um umsóknir þeirra um aðild að Atlantshafsbandalaginu verði áfram haldið eftir daginn í dag. Þeim þurfi ekki endilega að vera lokið fyrir leiðtogafund NATO í Madríd í næstu viku. 

Fulltrúar Finna, Svía og Tyrkja hittust á fundi í Brussel í dag og vonuðust önnur aðildarríki NATO eftir góðum árangri. Ibrahim Kalin, ráðgjafi Tyrklandsforseta, sagði eftir fundinn að viðræðunum yrði áfram haldið og að leiðtogafundur næstu viku í Madríd skipti ekki máli í því samhengi. Þá sagði Kalin að ríkin tvö yrðu að útrýma hryðjuverkasamtökum heima fyrir.

Tyrkland hefur eitt aðildarríkja lagst gegn aðild Finnlands og Svíþjóðar og sagt ríkin skjóta skjólshúsi yfir liðsmenn Verkamannaflokks Kúrda, sem Tyrkland flokkar sem hryðjuverkasamtök.

Kalin sagðist búast við að Svíar gripu tafarlaust til aðgerða gegn Verkamannaflokki Kúrda í Svíþjóð. Viðhorf Tyrkja til umsóknanna réðist af því hversu fljótt væri gripið til þessara aðgerða og því hvaða árangur næðist.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sótti fundinn sömuleiðis og sagði að áhyggjur Tyrkja ættu rétt á sér. Þá sagði hann að ekki hefði verið brugðist við þeim að fullu. Því yrði viðræðum áfram haldið en þeim lyki vonandi sem allra fyrst.

Þórgnýr Einar Albertsson