Þetta er metnaðarfull frumraun sem inniheldur fimm þjóðlagaskotin popplög með vandaða textagerð á íslensku í aðalhlutverki. Textar Unu eru mjög persónulegir og hefur hún áður lýst þeim sem hálfgerðum dagbókarfærslum þar sem hún leyfir sér að fjalla um málefni hjartans á opinskáan hátt.
Hildur Kristín Stefánsdóttir annaðist upptökustjórn fyrir plötuna, en Hafsteinn Þráinsson (CeaseTone) sá um hljóðblöndun og Kári Ísleifsson hljómjafnaði. Enn fremur sáu Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir og Tumi Torfason, bróðir Unu, um hljóðfæraleik ásamt Unu sjálfri.
Flækt og týnd og einmana eftir Unu Torfa er plata vikunnar á Rás 2 og verður leikin í heild sinni að loknum tíufréttum í kvöld, auk kynninga Unu.