Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tíðindin í Frakklandi líkist pólitískum jarðskjálfta

20.06.2022 - 10:04
Mynd: Kristinn Ingvarsson / Vísindavefur HÍ
Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, missti meirihluta sinn á franska þinginu í kosningum sem fram fóru í landinu í gær. Miðjubandalag forsetans tapaði 100 þingsætum en Þjóðfylking Marie Le Pen bætti við sig í kosningunum og þá er nýtt vinstribandalag leitt af Jean-Luc Melenchon, næst stærst á eftir miðjubandalaginu.

Torfi Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Frakklands, segir tíðindin líkjast pólitískum jarðskjálfta.

„Þetta er í fyrsta sinn sem að nýkjörinn forseti fær ekki meirihluta þingsins á bakvið sig í kosningum. Frakkar vita ekki alveg hvernig þeir eiga að snúa sér í þessu hvernig verður landinu þá stjórnað næstu fimm árin.“ segir Torfi.

Léleg kjörsókn geti stafað af vantrú

Torfi segir að það megi færa rök fyrir því að þetta verði stærsti heildstæði þingflokkurinn í stjórnarandstöðu, þar sem að vinstra bandalagið sé í sjálfu sér stærra heldur en hægri öfga flokkurinn.

„Önnur tíðindin eru þau að innan við helmingur frakka mætti á kjörstað og það þýðir að frakkar hafa kannski ekki mikla trú á hinu lýðræðislega ferli,“ segir Torfi.

Hann bætir við að ef til vill sýni þetta ákveðna vantrú á hið pólitíska ferli í Frakklandi, sem sé mjög alvarlegt.