
Stefna áfram að lokun þýskra kolavera
Þjóðverjar ætla enn að loka öllum kolabrennsluverum sínum, eins og stjórnvöld hafa samþykkt, til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Stephan Gabriel Haufe, talsmaður efnahagsmálaráðuneytisins, sagði á fréttamannafundi að ekki hefði komið til tals að endurskoða þetta markmið heldur væri það mikilvægara en nokkru sinni fyrr.
Ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins, Frjálsra demókrata og Græningja samþykkti í stjórnarsáttmála eftir kosningar síðasta árs að flýta lokun kolavera. Áður var stefnt að lokun þeirra árið 2038 en nú árið 2030.
Orkuverð hefur hækkað mjög um allan heim frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Um 55 prósent þess jarðgass sem Þjóðverjar fluttu inn fyrir innrásina komu frá Rússlandi. Nú er hlutfallið 35 prósent.
Þá hafa Þjóðverjar hætt við að taka Nord Stream 2 gasleiðsluna frá Rússlandi í notkun og rússneska gasfyrirtækið Gazprom hefur skorið á gasflutninga til allnokkurra Evrópuríkja.
Vegna þessa samþykkti ríkisstjórnin í síðustu viku að auka kolabrennslu til þess að sjá Þjóðverjum áfram fyrir rafmagni. Robert Habeck efnahagsmálaráðherra sagði þetta erfiða ákvörðun en nauðsynlega.