Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Selur Nóbelsverðlaunin og styrkir börn í Úkraínu

Mynd: EPA / EPA
Yfir hundrað milljónir manna eru á flótta og hafa aldrei verið fleiri. Friðarverðlaun Nóbels, sem rússneskur ritstjóri hlaut í fyrra, verða boðin upp í dag og rennur ágóðinn til barna á flótta.

Dmitry Muratov hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra, ásamt filippseyska blaðamanninum Mariu Ressu fyrir baráttu fyrir tjáningarfrelsi. Hann er ritstjóri rússneska fjölmiðilsins Novaya Gazeta. Nóbelsverðlaunin sjálf eru úr skíragulli og í ljós kemur síðar í kvöld hvert hæsta boð í þau er. Á sjötta tímanum jafngilti hæsta boðið um hundrað og fimm milljónum króna. Andvirðið rennur til UNICEF til hjálpar börnum á flótta vegna stríðsins í Úkraínu. Verðlaunin eru boðin upp hjá Heritage Auctions í New York

„Við skiljum að ef búið er að eyðileggja fortíð fólks getum við reynt að tryggja að framtíð þess verði ekki rifin í tætlur,“ segir Muratov.

Táknrænt er að uppboðinu ljúki í dag, á alþjóðadegi flóttamanna. Á ráðstefnu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, í tilefni dagsins, kom fram að hundrað milljónir manna eru þessa stundina á flótta. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri. Ástæðurnar eru ýmsar, svo sem þurrkar og stríðsátök. 

„Þetta er neyð sem hefur mikil áhrif á allar heimsálfur og sérhvert land því stríð geisar í hjarta Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu, en víða annars staðar eru átök, ofbeldi og óstöðugleiki,“ segir Carlotta Sami, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hún nefnir sem dæmi Asíu, Mjanmar, Afganistan, Afríku, Mið-Ameríku og Rómönsku Ameríku.