Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ónæmið ekki langvarandi - fólk geti smitast endurtekið

20.06.2022 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sjúklingur með COVID-19 lést á legudeild Landspítalans í gær. Fyrir helgi var nýgengi smita í samfélaginu ríflega 600 á hver 100 þúsund. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma, segir að á næstu dögum komi í ljós hvort allt fer á hliðina eftir mikið samkomuhald síðustu daga.

Hópsmit eru á níu starfsstöðvum Landspítalans, 29 smitaðir sjúklingar eru á legudeildum og fimm á bráðamóttökunni. Þrír útskrifuðust af legudeild COVID-19 í gær og þrír voru lagðir inn.

Tveir sjúklingar með COVID-19 létust um helgina. Már segir að þorri þeirra sem liggja á legudeildinni séu sjötíu ára og eldri.

„Ég held að næstu daga muni svolítið skera úr um það hvort að hér fari allt á hliðina útaf hátíðarhöldum í kringum 17. júní og útskriftum og öðru slíku.

Mótefnsvarið sé farið að dala á sex til sjö mánuðum

Már segir að það ætti ekki að koma á óvart með þessa kórónuveiru að mótefnasvarið dali með tímanum, eftir um það bil sex til sjö mánuði sé mótefnið farið að dala.

Hann veltir fyrir sér hvort skýra megi fjölda smita með því að langt sé liðið frá því að fjöldabólusetningum lauk. Staðan á spítalanum sé erfið þar sem margt starfsfólk er í sumarfríi og færri til að takast á við þessi viðfangsefni. Það sé áhyggjuefni.

„Miðað við allar þessar fjórar sem hafa verið þekktar um langa hríð að þá er ónæmið gegn þeim ekki langvarandi, þannig að fólk getur fengið þessar kórónuveirur endurtekið.“

Már segir að auk þeirra sem smitaðir eru af COVID-19 og og heilsufarsvandamál tengd því að þá sé fólk á spítalanum með annarskonar heilbrigðisvandamál sem þurfi að sinna.

„Þetta rekst svolítið hvort á annað,“ segir Már.