Merkilegt samband manns og bíls

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Í sambandi manns og bíls geta verið tilfinningar, sem getur hamlað því að óökuhæfum bílum sé fargað, segir heilbrigðisfulltrúi. Allt of mikið sé af bílum sem eru ekki í notkun og vandamálið fari vaxandi.

Of fáum bílum skilað í förgun

Bílum á Íslandi fer sífjölgandi en það þýðir þó ekki að þeir séu allir á götum landsins. Það virðist líka vera fjölgun á þeim bílum sem er lagt um allt land og eru engum til gagns.

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu voru innfluttir bílar árið 2021 tæplega 18.000. Á sama tíma voru rúmlega 11.100 bílar afskráðir, þar af um 9.600 bílar í förgun. Sumir hinna afskrifuðu bíla eru fluttir úr landi en aðrir, þeir enda til dæmis inni á lóðum eða eru einfaldlega skildir eftir á opinberum svæðum.

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segir vandamálið vera vaxandi. „Því miður er það þannig að nútímafólkið það skilur gjarnan bílana sína bara eftir þegar það hefur ekki not fyrir þá lengur.“

Leysa út bíla og koma þeim fyrir á öðrum stað

Á yfirgefna bíla er límd aðvörun áður en þeir eru fluttir í geymslu. Eigandi hefur þrjátíu daga til að gefa sig fram og leysa bílinn út. Ef ekki eru þeir sendir í brotajárn.

„Þegar bílar eru leystir út er stundum um á tilfærslu á vandamálinu að ræða, að hann er kannski settur á nýjan stað og fyrr en síðar kemur þá kannski kvörtun þar líka og þá byrjar þessi leiðindahringur enn aftur,“ segir Alfreð.

Hann segir sömuleiðis að það sé þekkt að eigendur fari með bílana í nærliggjandi sveitarfélög og skilji þá þar eftir.

Getur orðið umhverfisvandamál

Ekki er bannað að hafa heillega númerslausa bíla á einkalóð. Alfreð segir að innanlóðar sem utan sé fólki þó skylt að ganga vel um.

„Það versnar í því ef bíllinn er orðinn lélegur í útliti, og kannski punkteruð dekk eða brotnar rúður eða olíuleki þá fer þetta að varða almannaheill og er orðið umhverfisvandamál.“ 

Úrvinnslusjóður greiðir um tuttugu þúsund krónur fyrir þá bíla sem skilað er til pressunar. Ástæður þess að óökuhæfir bílar skila sér ekki þangað eru ýmsar.

„Samband manns og bíls er svolítið merkilegt, það getur verið tilfinningasamband og fólk er kannski með einhverjar hugmyndir um að gera bílinn upp þannig að hann verði glæsilegur og góður,“ segir Alfreð.