Krefjandi verkefni bíða nýs forseta

Mynd: EPA-EFE / EFE
„Þið hafið orðið vitni að sögulegum viðburði. Ekki aðeins í Kólumbíu, heldur líka í Suður Ameríku og heiminum öllum". Svona komst Gustavo Petro nýkjörinn forseti Kólumbíu að orði í sigurræðu sinni í gær.

Jafnar og spennandi kosningar

Sigurinn markar tímamót í stjórnmálum landsins, en aldrei áður hefur vinstri sinnaður forseti verið við völd í Kólumbíu. Petro bar naumlega sigurorð af mótframbjóðanda sínum í síðari umferð forsetakosninganna í gær, milljarðamæringnum Rodolfo Hernandez, eftir mjög jafna og spennandi kosningabaráttu. Petro fékk 50,4% atkvæða en Hernandez hlaut 47,3%.

Ólíkar áherslur

Gustavo Petro er 62 ára hagfræðingur og þingmaður á kólumbíska þinginu og fyrrverandi borgarstjóri í Bogotá, höfuðborg landsins. Petro lagði í kosningabaráttunni áherslu á loftslagsmál, jafnrétti þegnanna til menntunar og vinnu, hærri skatta á tekjuhæstu hópana og að ríkið tæki þátt í efnahagslegri uppbyggingu. 

Hernández, sem er forríkur 77 ára fasteignakóngur, byggði sinn málflutning einkum á að berjast gegn glæpalýð og spilltu stjórnkerfi.

Feministi varaforseti 

Petro tekur við embættinu af hinum umdeilda sitjandi forseta Kólumbíu, íhaldsmanninum Ivan Duque. Duque óskaði verðandi forseta til hamingju á Twitter í dag og sagði að þeir myndu funda í vikunni til þess að ræða valdaskiptin.

Niðurstaða kosninganna er einnig söguleg þar sem umhverfisverndarsinninn og femínistinn Francia Marquez verður varaforseti Petros, og verður með því fyrsta svarta konan til þess að gegna embættinu í Kólumbíu. 

Fylgdist með í Kólumbíu

Spegillinn ræddi í dag við Dylan Herrera, kólumbískan stjórnmálafræðing sem búsettur er á Íslandi og fylgst hefur vel með stjórnmálum í heimalandi sínu. Hann er reyndar staddur í Bogotá höfuðborg Kólumbíu og varð því vitni að lokasprettinum í kosningabaráttunni og viðbrögðunum við úrslitunum. 

Óvægin og óheiðarleg kosningabarátta

Hann segir að ástandið i Kólumbíu sé mjög sérstakt og mikil spenna í loftinu. Óttast var að kosningabaráttan, sem var spennandi og jöfn, yrði ofbeldisfull og jafnvel að óeirðir brytust út.

Það gerðist ekki, en baráttan var mjög óvægin og óheiðarleg, mjög hart var sótt að frambjóðendunum báðum með falsfréttum og lygum sem gerir kólumbísku samfélagi ekkert gott segir Dylan,  það sé nógu tvístrað og brotið fyrir. 

Hefðbundin stjórnmálaöfl ekki með

Dylan Herrera segir einstakt að þeir Gustavo Petro og Rodolfo Hernandez, sem komust í seinni umferð forsetakosninganna, séu ekki fulltrúar hinna hefðbundnu stjórnmálaafla sem ráðið hafa ríkjum í Kólumbíu undanfarna áratugi. Það sé áhugavert en valdi einnig vissum áhyggjum.

Í kosningabaráttunni var lögð áhersla á þá sem sterka leiðtoga, minna fór fyrir pólitískri stefnu, og Dylan óttast að þetta geti komið niður á lýðræði og lýðræðisstofnunum landsins, þinginu og flokkakerfinu.

Einfölduð mynd af frambjóðendum 

Hann segir þó, að myndin sem dregin hafi verið upp af báðum frambjóðendum sé einfölduð - Gustavo Petro sem fyrrverandi hryðjuverkamaður og Rodolfo Hernandez sem hinn kólumbíski Donald Trump. 

Petro hafi vissulega verið byltingarsinni og tekið þátt í  vopnuðum skæruliðasamtökum, en þau voru lögð niður fyrir 30 árum og hann hefur verið þingmaður og borgarstjóri Bogotá síðan. Hernandez er vel þekktur viðskiptajöfur í heimalandi sínu og þó málflutningur hans virðist oft einfaldur þá er hann ekki Trump. 

Fyrsta vinstri stjórn í 200 ára sögu

Dylan Herrera segir mikilvægt að hafa í huga að þetta sé í fyrsta sinn sem vinstri sinnaður maður sé kosinn forseti Kólumbíu og þar með að vinstri stjórn taki við völdum í 200 ára sögu lýðveldisins.  Ólíkt mörgum öðrum löndum í Suður Ameríku hefur herinn ekki hrifsað til sín völdin í Kólumbíu.

Landinu hefur verið stjórnað af frjálslyndum og/eða íhaldssömum öflum. Petro hafi sagt í sigurræðu sinni í gær að pólitískt landslag virðist vera að breytast í Suður-Ameríku og þá til vinstri. Sjá megi merki þess í Perú, Chile og Bólivíu og ólga í Brasilíu virðist benda í þá átt líka.

Spurning um vinstri sveiflu í álfunni

Spurningin er hvort að Suður-Ameríka sé að færast til vinstri. Dylan segir að  heimsfaraldurinn hafði haft mikil áhrif þar og það voru fjölmenn mótmæli víða um lönd sem gerðu stjórnum landanna mjög erfitt fyrir.  Það sé því áhugavert og spennandi og sjá hvort heimsálfan sé pólitískt að breytast.

Mjög krefjandi verkefni bíða hins nýja forseta Kólumbíu. Hann þarf í raun að semja um frið í landinu í kjölfar Covid faraldursins, þjóðin er margklofin, bilið á milli ríkra og fátækra er stórt, atvinnuleysi er mikið, vopnaðir skæruliðahópar eru enn við lýði og hann þarf að ná samkomulagi við þá. Verkefnið er risastórt fyrir Gustavo Petro, segir Dylan Herrera.