Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Auðveldara að losna úr hjónabandi við ofbeldismann

20.06.2022 - 16:23
Mynd með færslu
Hanna Katrín Friðriksson. Mynd: RÚV
Þolendum heimilisofbeldis er gert auðveldara að skilja við maka sem hafa beitt þá eða börn þeirra ofbeldi með lögum sem Alþingi samþykkti í síðustu viku. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir að það hafi verið gríðarlega íþyngjandi fyrir marga þolendur ofbeldis að losna ekki úr hjónabandi við ofbeldismanninn,

Alþingi samþykkti fimm breytingar á hjúskaparlögum sem eiga annars vegar að gagnast þolendum ofbeldis í sambandi og hins vegar fólki sem er sammála um að vilja skilnað. Flest atriðin snúa að því að einstaklingur sem hefur mátt þola ofbeldi af hálfu maka síns geti skilið jafnvel þó svo makinn sé ósammála því sem og að skilnaður gangi hraðar fyrir sig.

Skiptir gríðarlega miklu máli

Frumvarpið um þessar breytingar er eitt þeirra stjórnarandstöðumála sem náði fram að ganga við þinglok. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Hún fagnar því hve vel hafi gengið að ná málinu í gegnum þingið. „Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir því miður töluverðan fjölda fólks.“ 

Ýmislegt breytist með samþykktinni. Ekki þarf lengur að fara í gegnum skilnað að borði og sæng eða sáttaumleitunarferli heldur aðeins samráð um forsjá barna, ef maki eða barn hefur verið beitt ofbeldi. „Með öðrum orðum þá er bara nóg að sýna fram á að þú hafir orðið fyrir ofbeldi eða barnið þitt og þá geturðu losað þig úr þessu hjónabandi,“ segir Hanna Katrín.

Að auki felur lagabreytingin í sér að fólk sem er sammála um að vilja skilnað þurfi ekki fyrst að skilja að borði og sæng áður en skilnaður gengur í gegn.

Gríðarlega íþyngjandi að sitja fastar í hjónabandi

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, segir mjög ánægjulegt að lögunum hafi verið breytt með þessum hætti. „Við höfum svo sannarlega séð það í Kvennaathvarfinu að það hefur getað verið gríðarlega íþyngjandi fyrir konur að sitja fastar í hjónabandi við ofbeldismann sem hefur eða hafði margarleiðir til að koma í veg fyrir að hjónabandinu ljúki.“

Sigþrúður segir að lagabreytingin eigi eftir að hjálpa þolendum ofbeldis að komast út úr hjónabandi. Þó eigi eftir að koma reynsla á hvernig lögin reynist í veruleikanum. Ýmis lög hafi verið sett til að bæta stöðu þolenda en gengið misjafnlega eftir, svo sem lög um nálgunarbann. „Ég held að þetta sé gott fyrsta skref. Auðvitað má velta fyrir sér af hverju þetta eigi ekki almennt við um öll þau sem vilja slíta hjónabandi á einhvern hátt, af hverju það getur ekki verið frekar smurt ferli fyrir alla.“ Sigþrúður segir að fólk sem býr við ofbeldi í nánu sambandi líti oft ekki svo á að það búi við ofbeldi, oft ríki skilgreining ofbeldismannsins í hugum beggja. Því geti krafan um að ofbeldi sé sannað komið í veg fyrir að lögin nýtist sumum þolendum til að losna úr hjónabandi.

Mynd með færslu
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs. Mynd: Lögreglan
Sigþrúður Guðmundsdóttir.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV