Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

2,6 milljarðar í íbúðir fyrir efnaminni

Mynd: Aðsend mynd / Íbúðalánasjóður
2,6 milljörðum króna var í dag úthlutað til húsnæðisuppbyggingar í almenna íbúðakerfinu. Eftirspurnin er langt umfram framboð og stendur vilji til að fjölga íbúðum enn frekar.

Stofnframlögin eru til uppbyggingar húsnæðis í almenna íbúðakerfinu sem ætlað er efnaminni einstaklingum á leigumarkaði. Ríkið leggur fram að minnsta kosti 18 prósent af stofnvirði íbúða í formi beins fjárframlags. Sveitarfélögin leggja fram 12 prósent  sem geta ýmist verið í formi beins framlags, lóðaúthlutunar eða lækkunar eða niðurfellingar opinberra gjalda. Afgangurinn, 70 prósent, eru í formi lána eða eigin fjár.

Milljarðarnir 2,6 renna til bygginga eða kaupa á 328 íbúðum. Meirihluti þessara íbúða verður á höfuðborgarsvæðinu, eða 176 íbúðir en 152 verða utan þess, til að mynda í Fjarðabyggð, Akranesi, Árborg, Múlaþingi og Bolungarvík. Er þetta hæsta hlutfall landsbyggðarúthlutana til þessa.

Frá því byrjað var að veita stofnframlög árið 2016 hafa rúmlega fimmtán hundruð íbúðir verið teknar í notkun. Fimm þúsund eru á biðlista eftir almennu íbúðarhúsnæði þannig að þörfin fyrir frekari úthlutunum er sannarlega fyrir hendi. Vilji er til að hækka stofnframlögin enn frekar. „Það hefur þó hingað til verið ákveðinn vandi að þau hafa ekki gengið út sem hafa verið úthlutuð vegna þess að lóðirnar hafa ekki verið byggingarhæfar,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að viðræður standa yfir við sveitarfélögin um einhvers konar rammasamning sem eigi að tryggja lóðaframboð.