
Bandalag Macron missir 100 þingsæti og tapar meirihluta
Þetta gerir Macron að mörgu leiti erfitt um vik. Ríkisstjórn hans hefur óskorað vald í öllu sem lýtur að utanríkis- og varnarmálum en þarf samþykki meirihluta þingsins til að koma öðrum stefnumálum í gegn svo sem umdeildu frumvarpi um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 65.
Nýtt vinstri bandalag og Þjóðfylking Le Pen á uppleið
Niðurstaðan sýnir töluverðar sviptingar í frönskum stjórnmálum. Miðjubandalagið hafði mjög ríflegan meirihluta á þingi eftir síðustu kosningar. Nýja vinstribandalagið NUPES, undir forystu Jean-Lucs Melenchon, er næststærst á eftir Miðjubandalaginu, með 135 sæti.
Þjóðfylking Marie Le Pen, sem talinn hefur verið til öfgahægriflokka, bætti verulega við sig í kosningunum og hlýtur 89 sæti á franska þinginu.
Því er ljóst að stjórn Macrons getur núna átt von á öflugri mótspyrnu á þinginu bæði frá hægri og frá vinstri.
Líklegt að Miðjubandalagið leiti til hægri
Þrátt fyrir að Miðjubandalagið hafi misst meirihlutann er það enn stærsti flokkurinn á þingi. Því telja margir að Macron setji saman nýjan meirihluta með því að bæta einhverjum hægriflokkanna við Miðjubandalagið sitt. Ef það gengur eftir getur hann áfram komið sínum málum þar í gegn.