Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandalag Macron missir 100 þingsæti og tapar meirihluta

19.06.2022 - 23:56
epa08134052 French President Emmanuel Macron delivers his New Year wishes to the soldiers as he visits an army base in Orleans, France, 16 January 2020. President Macron will delivered the new year's speech to France's armed forces, amid new tensions in the Mideast and Africa.  EPA-EFE/JULIEN DE ROSA / POOL
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, missti meirihluta sinn á franska þinginu í kosningum í landinu í dag. Miðjubandalag forsetans, Ensamble, hlaut 245 sæti á þinginu en þurfti 289 sæti til að halda meirihlutanum. Bandalagið tapar 100 þingsætum frá því í síðustu kosningum.

Þetta gerir Macron að mörgu leiti erfitt um vik. Ríkisstjórn hans hefur óskorað vald í öllu sem lýtur að utanríkis- og varnarmálum en þarf samþykki meirihluta þingsins til að koma öðrum stefnumálum í gegn svo sem umdeildu frumvarpi um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 65.

Nýtt vinstri bandalag og Þjóðfylking Le Pen á uppleið

Niðurstaðan sýnir töluverðar sviptingar í frönskum stjórnmálum. Miðjubandalagið hafði mjög ríflegan meirihluta á þingi eftir síðustu kosningar. Nýja vinstribandalagið NUPES, undir forystu Jean-Lucs Melenchon, er næststærst á eftir Miðjubandalaginu, með 135 sæti.

Þjóðfylking Marie Le Pen, sem talinn hefur verið til öfgahægriflokka, bætti verulega við sig í kosningunum og hlýtur 89 sæti á franska þinginu.

Því er ljóst að stjórn Macrons getur núna átt von á öflugri mótspyrnu á þinginu bæði frá hægri og frá vinstri.

Líklegt að Miðjubandalagið leiti til hægri

Þrátt fyrir að Miðjubandalagið hafi misst meirihlutann er það enn stærsti flokkurinn á þingi. Því telja margir að Macron setji saman nýjan meirihluta með því að bæta einhverjum hægriflokkanna við Miðjubandalagið sitt. Ef það gengur eftir getur hann áfram komið sínum málum þar í gegn.