Tillaga um vistmorð send til ríkisstjórnarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þingsályktunartillaga um að vistmorð verði viðurkennt sem alþjóðaglæpur var vísað til ríkisstjórnarinnar á miðvikudag. Þingmenn voru sammála um að mikilvægt væri að geta dregið fólk til ábyrgðar fyrir meiriháttar umhverfisspjöll.  

Tillagan snýst um að ríkisstjórnin leggi það til við þing aðildarríkja Alþjóðasakamáladómstólsins að vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum. Þá verði hægt verði að sækja til ábyrgðar þá sem bera ábyrgð á stórum umhverfisspjöllum á borð við eyðingu regnskóga, olíuleka eða geislamengun.  

„Þau eru oft svo stór að einstaka ríki eru ekki með lögsögu um þessa löggjöf til að ná almennilega utan um þau,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. 

„Þess vegna hefur verið aukinn þungi í umræðunni um að það vanti alþjóðaregluverk til að ná utan um þetta.“ 

Andrés  segir að samhugur hafi ríkt um kjarna málsins, en að meðlimir í allsherjar- og menntamálanefnd hafi verið ósammála um hvernig skyldi afgreiða það. Fulltrúar meirihlutans lögðu til að unnin yrði greining á lagaumhverfinu og stöðu vistmorða í alþjóðakerfinu. Engu að síður lagði meirihlutinn áherslu á mikilvægi þess að hægt væri að draga fólk til ábyrgðar vegna brota sem skilgreind hafa verið sem vistmorð. 

„Nú er búið að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar með þessari jákvæðu umsögn allra sem komu að þessu máli. Þá held ég að við verðum bara að treysta því að ríkisstjórnin taki þessu fagnandi og byrji að vinna þessar greiningar sem meirihlutinn kallar eftir og komi svo með tillögur að aðgerðum til að taka skref í þessa átt,“ segir Andrés Ingi Jónsson.