Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Þetta er engin ömurð“

Mynd: Rut Sig / Aðsend

„Þetta er engin ömurð“

17.06.2022 - 12:30

Höfundar

„Þetta er alveg rjúkandi heitt, þetta er slagari,“ segir tónlistarkonan Védís Hervör sem gefur út nýtt lag í fyrsta sinn í fjögur ár. Lagið heitir Pretty Little Girls og er ádeila á útlitsdýrkun samtímans - sem jafnvel Védís sjálf tekur þátt í.

Tónlistarkonan Védís Hervör hefur sent frá sér nýtt lag í fyrsta sinn í fjögur ár sem heitir Pretty Little Girls. Lagið er ádeila á útlitsdýrkun samtímans í umgjörð áhrifavalda og hvernig síbylja skilaboða um útlit og áferð gegnsýrir samfélagsmiðla. 

Ferillinn hefur verið gloppóttur en drjúgur  

„Tíminn er afstætt hugtak,“ segir Védís í samtali við Sigurð Þorra Gunnarsson í Popplandi á Rás 2. „Ferillinn hefur verið gloppóttur, getum við sagt, en drjúgur.“ Védís hefur sótt sér menntun og starfað við ýmislegt með fram því að gefa út tónlist en segist vinna að henni í hjáverkum. „En þetta er alltaf ástríðan og hjartað,“ segir hún. „Maður losnar aldrei við þetta.“ 

Í dag starfar Védís sem miðlunarstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og unir sér ofboðslega vel þar. „Svo fer maður bara í stúdíóið til að fá útrás og sest við píanóið og annað.“ 

„Ég er að stúdera hvað þetta er orðið galið“

Védís hafði átt lagið til ofan í skúffu í fjögur ár og er nú loksins að gefa það út. „Þetta er svona ádeila á útlitsdýrkun og samfélagsmiðla,“ segir hún. „Og skilaboð til yngri kynslóðarinnar, en þetta er alveg rjúkandi heitt, þetta er alveg slagari,“ bætir hún við. „Þetta er engin ömurð.“ 

Védís er þó meðvituð um þá íróníu að hún sjálf noti andlitsfarða og vilji gera sig fína áður en hún fer út úr húsi. „Ég var að mála mig og í sömu andrá er ég að gefa út lag um útlitsdýrkun. En ég gat alls ekki komið í sett án þess að setja á mig smá skyggingu.“ 

„Þannig að maður getur nú hlegið að þessu, það er svo margt skrítið í þessu,“ segir hún. Tískan og andlitsförðun getur einnig verið hluti af listrænni tjáningu fólks og hægt er að hafa mjög gaman af henni. „En ég er aðeins að stúdera hvað þetta er orðið galið,“ segir hún. Allt frá kínversku fegurðaraðgerðinni að binda fæturna á konum á 11. öld þar til þær urðu örkumla yfir í að farða á sér andlitið á sér í dag svo það verði nánast óþekkjanlegt en nær viðurkenndum fegurðarviðmiðum. „Það þótti fínt að vera með mjög þunnar varir, í dag er það ekki þannig,“ segir hún.  

„Þetta er bara fyndið og skemmtilegt að skoða. Og það er svona það sem Pretty Little Girls snýst um,“ segir hún og bætir við að vilji fólk hlusta á eitthvað annað en jólalög frá sér sé nýja lagið hennar tilvalið.  

Rætt var við Védísi Hervöru í Popplandi á Rás 2. Viðtalið má hlýða á í spilaranum hér að ofan.