Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segja Trump hafa þrýst á Pence að brjóta lög

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, þrýsti á þáverandi varaforseta landsins, Mike Pence, að brjóta lög í kjölfar kosninga í landinu árið 2020. Trump hafi með ólögmætum hætti reynt að fá Pence til þess að ógilda niðurstöðu kosninganna.

Þetta kom fram á opnum fundi rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings í gær, fimmtudag. Þar sagði að bæði Trump og ráðgjafar hans hefðu vitað að ráðabrugg þeirra væri ólöglegt.

Áætlanir Trumps virðast þó hafa verið byggðar á misskilningi, en sérfræðingar þar í landi segja það lögum samkvæmt ekki í höndum varaforseta að standa í vegi fyrir að niðurstaða kosninga verði staðfest í þinginu. Trump hefur þó ítrekað haldið því fram að Pence hafi ráðið úrslitum.

Pence hafi varið lýðræðið með að neita

Bennie Thompson, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir að lýðræði í Bandaríkjunum hafi staðið af sér ráðabrugg Trumps þar sem Pence hafi neitað að ógilda niðurstöðuna. Nefndin hefur sakað Trump um tilraun til valdaráns, með því að hafa boðað til óeirða þann 6. janúar 2020. 

Aðstoðarmenn Mike Pence báru vitni frammi fyrir rannsóknarnefndinni í gærkvöld, fimmtudag, og eru það þriðju vitnaleiðslur nefndarinnar frá því hún tók til starfa.

Nefndin er leidd af Demókrötum. Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að vitnaleiðslurnar snúi að því að sýna fram á að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og margítrekaðar, falskar fullyrðingar hans um kosningasvik og „stolinn“ kosningasigur Joes Biden hafi verið kjarninn í því samsæri sem knúði æsta fylgjendur hans til að ráðast á þinghúsið hinn 6. janúar 2021, daginn sem sameinað Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta kjör Bidens í forsetaembættið.