Liturinn á klæðnaði Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, er engin tilviljun. Framkvæmdastjórnin sendi skýr skilaboð í morgun þegar hún lagði til að Úkraína fengi formlega stöðu umsóknarríkis. „Við vitum öll að úkraínska þjóðin er reiðubúin að deyja fyrir hið evrópska sjónarhorn. Við viljum að þau lifi með okkur evrópska drauminn,“ sagði von der Leyen.
Umsókn Moldóvu fær sama stuðning en leiðtogar allra 27 aðildarríkja þurfa að samþykkja að löndin tvö fái stöðu umsóknarríkis. Þeir hittast á fundi í Brussel í næstu viku. Þetta er mikilvægt skref í átt að aðild að ESB en þýðir þó ekki að öruggt sé að umsókn verði samþykkt. Ferlið í heild gæti tekið langan tíma, jafnvel nokkur ár.
Yfirburðir Vesturlanda ekki eilífir
Skilaboð forseta Rússlands voru einnig nokkuð skýr í ræðu á efnahagsráðstefnu í Sankti Pétursborg. „Það virðist sem valdaelítan í sumum vestrænum ríkjum sé enn föst í þessari gerð sjónhverfinga, hún vill ekki taka eftir augljósum hlutum og heldur einarðlega dauðahaldi í skugga fortíðar. Til dæmis trúir hún að yfirburðir Vesturlanda í pólitík og hagfræði heimsins séu óbreytanleg, eilíf staðreynd. Ekkert er eilíft!“ Sagði Pútín.
Pútín kallaði efnahagsþvinganir gegn Rússlandi fáránlegar og sagðist hafa verið tilneyddur að ráðast inn í Úkraínu. „Öllum markmiðum sérstöku hernaðaraðgerðarinnar verður náð. Til vitnis er hugprýði og hetjuskapur hermanna okkar, ásamt samstöðu rússnesks þjóðfélags sem, með stuðningi sínum, veitir rússneska hernum og flotanum styrk,“ sagði forsetinn.