Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Farið yfir öll mörk áhorfenda

Mynd: Fullorðið fólk / Stelpur og strákar

Farið yfir öll mörk áhorfenda

17.06.2022 - 12:00

Höfundar

„Það er vandmeðfarið að fjalla um svona viðkvæmt mál, en hér er gengið út á ystu nöf og leikið sér með tilfinningar áhorfenda, af engri augljósri ástæðu annarri en að sjokkera,“ segir Nína Hjálmarsdóttir um leiksýninguna Stelpur og strákar.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Einleikur er form sem lifir svo sannarlega góðu lífi hér á landi, og hefur frá landnámi, enda ástæða þess að ríkur sagnaarfur íslensku þjóðarinnar gat varðveist í manna minnum fram að skrásetningu. Í samtíma okkar þá má nefna einleikjahátíðina Act Alone á Suðureyri sem hefur vakið mikla athygli, en líka rými eins og Kaffileikhúsið sem ól af sér marga goðsagnakennda einleiki um aldamótin síðustu, og hefur mótað einleikjamenningu dagsins í dag,- en einleikur er ansi praktískt form og kostnaðarlítið, en um leið ein mest krefjandi tegund leiklistarinnar. 

Í lok maí var frumsýning á einleiknum Stelpur og Strákar eftir breska leikskáldið Dennis Kelly, en hann var fyrst settur upp árið 2018 í Royal Court leikhúsinu í London, þar sem hin fræga leikkona Carey Mulligan lék aðalhlutverkið. Hér var verkið sýnt í Gaflaraleikhúsinu, í uppsetningu sviðslistahópsins Fullorðið fólk, en hin nýútskrifaða Björk Guðmundsdóttir lék hlutverk konunnar sem aldrei er nefnd á nafn. Það er alltaf ánægjulegt að fara til Hafnarfjarðar að sjá leiksýningu, og stemning sem fylgir því að sjá verk í sjálfstæðu rými eins og Gaflaraleikhúsinu. Það verða síðan ekki fleiri sýningar í Hafnarfirði í bili, heldur mun verkið fara hringinn í kringum landið, og verður sett upp í Dýrafirði, á Seyðisfirði, Eskifirði og í Borgarnesi.

Björk stendur ein á sviðinu og leikur öll hlutverkin, en sviðið er vítt í þessu leikhúsi og skipt í tvö rými með plast-tjaldi, en sviðsmyndin er falleg myndlíking um hugarástand persónunnar, og eftir hlé er henni breytt á táknrænan hátt. Konan segir áhorfendum frá því þegar hún hitti framtíðareiginmann sinn í biðröð á flugvelli á Ítalíu. Hún dregur upp nostalgíska mynd af ástríðufullu sambandi, hvernig hann elskaði hana og börnin þeirra, og hvernig hann studdi hana í að landa draumastarfinu sem þróunarstjóri í kvikmyndagerð. Allt var fullkomið, fyrir utan að hún breytti sér til að vera sú sem hún hélt að hann vildi og kom í veg fyrir að hann gæti átt neinar kvenkyns vinkonur,- en það var nú kannski bara eðlilegt. Stundum fer konan á bakvið tjöldin og á í samskiptum við börnin sín tvö, þar sem strákurinn virðist vera herskár ærslabelgur en stelpan prúð og greind. Kynjatvíhyggja er endurtekið stef í verkinu, en erfitt að sjá hvort um sé að ræða ádeilu eða stuðning við ráðandi strúktúr. Ég sat og hlustaði á frásögnina og botnaði lítið í boðskap verksins, og spurði sjálfa mig, snýst þetta kannski bara um týpískt, heterónormatívt samband sem er gegnsýrt af eitraðri afbrýðisemi og eignarhaldi?

Rétt fyrir hlé kemur þó loksins að vendipunktinum í verkinu, þegar konan viðurkennir fyrir áhorfendum að hún viti alveg að börnin hennar séu ekki hér, þau eru dáin. Verkið sem byrjaði sem kómedía umturnast í tragedíu. Við þetta afhjúpast söguþráðurinn og verður nokkuð fyrirsjáanlegur. Í ljós kemur að höfundurinn er að rannsaka ofbeldi, og hvort það sé eitthvað í eðli karlmannsins, eitthvað rotið í Danaveldi, sem megnar ekki að konan skíni skærar í sambandinu, sem knýr hann til dómínerandi verka, sem leiðir hann til ofbeldis.

Leikritið nær hámarki í senu sem gjörsamlega fer yfir öll mörk áhorfenda, og ég verð að segja að mér sem áhorfanda var raunverulega misboðið. Vert er að nefna að í lýsingu á verkinu er trigger aðvörun þar sem fólk getur haft samband til að fá nánari upplýsingar um efni verksins. Misnotkun kemur í hugann, já ég nota sterkt orð því það var þannig sem mér leið eftir atriðið, mér leið eins og ég hefði verið misnotuð. Þessi misnotkun er auðvitað skrifuð inn í handritið en hún er dregin enn frekar fram í uppsetningunni, þar sem það er leikstjórnarleg ákvörðun að lýsa upp áhorfendapallana meðan á atriðinu stóð. Það er vandmeðfarið að fjalla um svona viðkvæmt mál, en hér er gengið út á ystu nöf og leikið sér með tilfinningar áhorfenda, af engri augljósri ástæðu annarri en að sjokkera. 

Þýðingin á verkinu er því miður afar slöpp og er líkt og þýðandinn hafi hent verkinu í Google Translate og látið þar við sitja. Mikið var um beinþýðingar úr ensku og áhersla lögð á runur af enskuskotnum og þvinguðum nafnorðum í stað þess að nota falleg íslensk sagnorð. Konan sagði orð sem pössuðu ekki við karaktersköpunina, orð sem var augljóst að svona týpa myndi aldrei segja. Stundum rankaði ég við mér þar sem ég var þýða setningarnar í hausnum til að botna eitthvað í atburðarásinni.

Gerð var einhvers konar tilraun til að staðfæra verkið í íslenskt umhverfi, þar sem persónan er stödd á Selfossi í upphafi verksins, en síðan er eins og þýðandinn hafi hætt við í miðju verki þar sem aldrei er á það minnst aftur hvar hún býr, og persónan er orðin stórlax í kvikmyndagerð á ágætis leið með að vinna Bafta-verðlaunin, ásamt öðrum þáttum sem gefa til kynna að við séum ekki lengur á Íslandi. Þegar líður svo á verkið og flétta þess afhjúpast, verður atburðarásin einkar ótrúverðug í íslensku samhengi. Kannski hefði verið ráð að sleppa því að staðfæra og leyfa verkinu að gerast í Bretlandi. 

Það þarf rosalegan styrk til að halda uppi tveggja tíma plús einleik, verki sem heimtar mikla einbeitingu af áhorfendum. Það er varla á færi hæfustu leikara, og krefst afburðatækni og mikillar reynslu. Björk Guðmundsdóttir hefur því valið stórt verkefni með þessari sýningu. Styrkleiki hennar felst í kómískum tímasetningum í fyrri hlutanum, en henni tókst ekki að ná þeirri jörð sem þarf í jafn einlægu og erfiðu hlutverki sem þessu. Leikurinn er of mikið á yfirborðinu, hún er sífellt á iði og finnur ekki þá rósemd sem hlutverkið þarfnast. Þó vinnur hún á þegar líður á verkið, og í lokin nær hún að stíga betur inn í hlutverkið og snerta við áhorfendum, konan sem elskaði manninn sem var ekki til. 

Vankantar leikritsins skrifast þó ekki aðeins á uppsetninguna, heldur liggja líka í handritinu sjálfu. Leikritið er skrifað frá sjónarhorni konunnar, og býður því aðeins upp á einhæfa upplifun hennar. Verkið sýnir því ekki þau blæbrigði eins og önnur verk sem hverfast í kringum ofbeldi hafa, og hér dettur mér sem dæmi í hug verkið Harmsaga sem var sett upp í Þjóðleikhúsinu fyrir einhverjum árum, en styrkleikur þess lá í því hvernig það sýndi áhorfendum allan skalann í ofbeldinu út frá báðum aðilum þess, hvernig ofbeldið ágerðist, þó að ljóst væri hver framdi á endanum hryllilegan glæp og hver ekki. Á einum tímapunkti í verkinu segir konan í Stelpum og strákum að hún sé að sjálfsögðu bara að segja frá sinni hlið sögunnar, sem er mögulega tilraun leikskáldsins til að afvopna gagnrýnendur, en þessi staðhæfing minnir um leið á hversu takmarkandi sjónarhorn verksins er.

Það er ánægjulegt að sjá ný erlend verk sett upp af upprennandi sviðslistafólki, og hvað þá að verkið sé að fara að túra um landið. Hins vegar er nauðsynlegt að taka ekki stærri bita en hægt er að tyggja, og verður að segjast að hópnum hefur færst mikið í fang með því að velja svona krefjandi verk. Á sama tíma er vert að spyrja sig hvaða erindi verk sem þetta hefur, verk sem gerir tilraun til að varpa upp spurningum um grimmilegustu ódæði sem karlmenn geta framið, en brýtur um leið á áhorfendum, og framlengir þannig ofbeldið sem það vill berjast gegn.