Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brúðuleikhúsið eins og góð blanda malts og appelsíns

Mynd: Handbendi Brúðuleikhús / Aðsend

Brúðuleikhúsið eins og góð blanda malts og appelsíns

17.06.2022 - 12:00

Höfundar

„Verkið er eins og bútasaumur minninga barns,“ segir Eva Halldóra Guðmundsdóttir, gagnrýnandi, um brúðuleikhússýninguna Heimferð. Leikhópnum tekst að skapa einstaklega hjartnæmt en virkilega harmþrungið verk.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir skrifar:

Það er ekki oft sem 34 ára kona og maðurinn hennar skella sér barnlaus á brúðuleikhússýningu  sér til skemmtunar. Gefið, ég er kannski ekki hinn almenni áhorfandi vegna mikils áhuga míns á leikhúsinu í sínum víðasta skilningi. Samt sem áður hugsaði ég með mér að ég hefði kannski átt að taka með mér barn í stað mannsins míns. Á leið minni á Akranes að sjá brúðuleiksýninguna Heimferð í uppsetningu Handbendi varð mér hugleikin saga brúðuleikhússins. Þetta listform er ævafornt en ég hef alltaf hugsað um það sem hluta af alþýðulist en ekki endilega gífurlega framúrstefnulegt. Brúðubíllinn kom upp í hugann sælla minninga, strengjabrúðusýningar á götuhornum í Hollandi og Prúðuleikararnir, en í hugsanaflæði mínu áttaði ég mig á að ég væri að setja brúðuleikhúsi frekar þröngar skorður. Brúðuleikhús getur í raun verið hvað sem er. Að handleika einhvern hlut og láta hann segja áhorfendum sögu eru í raun einu skilyrðin til að brúðuleikhús verði til. Hluturinn getur verið brúða eða eitthvað allt annað. Með það að leiðarljósi gekk ég inn á sýninguna. Handbendi Brúðuleikhús er með höfuðstöðvar sínar á Hvammstanga en er nú á leikferð með sýninguna Heimferð. Sýningin hefur þegar verið á flakki um landið en verður sýnd til 19. júní á hinum ýmsu stöðum.

Það mætti segja verkið sé eins og góð malt og appelsín blanda því þau setja upp hefðbundið brúðuleikhús í óhefðbundnu leikrými og jafnframt er brúðuleikurinn óhefðbundinn á köflum. Þetta er stutt verk og fyrir alla fjölskylduna. Áhorfendum er boðið inn í húsbíl. Sýningin hefst á því að þrír sögumenn bjóða alla velkomna og gengið er inn í ævintýralega leikmyndina. Þegar líður á verkið fáum við að kynnast sögu Guðrúnar. Hún er lítil stelpa sem býr nú í húsbíl en ekki vegna þess að fjölskyldan vilji ferðast og safna í minningarbankann, heldur vegna þess að þeim hefur verið bolað burt úr landi sínu. Við sitjum með Guðrúnu þar sem hún rifjar upp hversdagslegar en dýrmætar stundir úr náinni fortíð þegar allt lék í lyndi - en nú er hún rótlaus. Á svipstundu breytist húsbíllinn úr öruggum hlýlegum stað í millibilsástand og stað stútfullan af óöryggi og umkomuleysi. 

Leikmyndin minnir eilítið á gamlan sumarbústað þar sem safnast hafa saman í hillur margs konar minningar. Tilgangur bílsins er að vera hreyfanlegur, gera fjölskyldum kleift að leggja land undir fót og safna minningum í hillurnar. Í byrjun verksins fáum við að kynnast heillandi heimilislífi húsbílsins. Í litlu rými og nánu samspili geta skapast bestu sumarfríin og notalegustu stundir fjölskyldu í samveru. Mér varð strax ljóst að áhyggjur mínar af að ég hefði átt að taka með mér barn voru óþarfar því um leið og ég steig upp í bílinn gleymdi ég mér í heimi verksins. Eins og áður sagði er leikmyndin margbrotin og fullkomlega úthugsuð til að skapa ánægju hjá áhorfendum. Egill Ingibergsson bjó til stórkostlega litla veröld í bílnum með leikmynd sem kemur sífellt á óvart og lýsingin er ævintýraleg. Tónlistin sem var í höndum DVA og Paul Mosely ýta undir nostalgíska tilfinningu með því að skapa þjóðlega og grípandi tónlist sem passar einstaklega vel inn í þessa fjölskyldusýningu.

Leikararnir Sigurður Arent Jónsson, Sylwia Zajkowska og Sigríður Ásta Olgeirsdóttir kynna söguheiminn listilega vel fyrir áhorfandanum með því að draga upp hluti héðan og þaðan úr leikmyndinni og verður maður fljótt dáleiddur af galdri þessa litla leikrýmis. Héðan og þaðan úr hillunum komu svífandi hlutir sem geymdu sögu, upplifun og minningu. Einnig fáum við að sjá margs konar leikbrúður sem eru hver annarri skemmtilegri. Cat Smits og Greta Clough hafa skapað ótrúlegar fígúrur í öllum stærðum og gerðum sem glæða verkið lífi. Í fyrstu þurfti ég að venjast nándinni við leikarana en þegar leið á verkið var hún kærkomin. Einnig kom á óvart hvað leikararnir léku fimlega um rýmið og var greinilegt að allar sviðshreyfingar og dans Snædísar Lilju Ingadóttur voru útpæld og útfærð fyrir litla rýmið. Byrjun verksins hefði mátt vera mun lengri því hún var svo ótrúlega skemmtileg. Ég vildi að hver einasti hlutur sem dreginn var fram hefði fengið meira rými og áhorfandinn fengið að njóta hans. Þrátt fyrir hraðan takt missir maður ekki beint af neinu en fær ekki alveg nægan tíma til að njóta ævintýrsins sem hlutirnir hafa að geyma. En þegar sagan heldur áfram hvílir verkið vel í frásögninni og grípa leikararnir þétt utan um áhorfendur með einlægni og hlýleika, því sorglegri sem sagan verður. Verkið er eins og bútasaumur minninga barns sem enduróma í hljóðmyndinni, í veggjum húsbílsins og frá hlutunum í hillunum. Leikstjórinn Greta Clough nær að leiða leikhópinn saman og skapa einstaklega hjartnæmt en virkilega harmþrungið verk.

Líkt og listformið sem hópurinn notast við eru vandamál flóttafólks ævaforn. Þrátt fyrir lærdóminn sem við gætum dregið af ákvörðunum forfeðra okkar virðist stríðsrekstur aldrei fá að heyra sögunni til. Það nísti inn að beini að sjá Guðrúnu upplifa óöryggi, flótta, missi og áföll. Saga Guðrúnar vekur áhorfendur til umhugsunar um stöðu barna við þessar aðstæður. Upp koma hugsanir um allar þær fjölskyldur sem hafa verið rifnar upp með rótum án fyrirvara vegna pólitískra ákvarðana manna sem þurfa ekki að bera brotabrot af þeim skaða sem dynja á þessum fjölskyldum. Spurningar leita á mann líkt og af hverju fær þetta að viðgangast? Hvernig má það vera að við sem mannkyn höfum ekki tekið okkur saman og komið í veg fyrir að saklaus lítil börn þurfi að upplifa svona hrottaskap? Hvernig stendur á að sú langvarandi og mikla barátta sem fram hefur farið til að tryggja mannréttindi hefur ekki skilað meiru?

Leikhópurinn beinir sjónum okkar að því hvað heimili er mikið öryggi og hversu gífurlegt áfall það sé að missa það. Fyrir mér er heimilið mitt hluti af minni grunnþörf. Rætur mínar eru sterkar hér í heimalandinu en miðað við ástandið í heiminum nú á dögum er allsendis ómögulegt að vita hvort það gæti verið hrifsað af mér. Heimferð er fjölskylduverk sem spyr risastórra spurninga um tilveru mannkyns. Hvers vegna fáum við sem höfum það gott að lifa í öryggi og allsnægtum á meðan aðrir þurfa að sauma saman minningar í huga sér? Hvað veldur því að ég bæti á myndavegginn heima hjá mér á meðan eina leikfang Guðrúnar litlu minnir hana á öll hin sem hún skildi eftir heima? Hvernig ratar maður aftur heim eftir að hafa verið rekinn á flótta? Og hverjar eru móttökurnar á áfangastað? Af hverju taka lönd heimsins ekki fagnandi á móti lítilli stúlku í neyð og bjóða hana velkomna? Það líður varla sú vika að við heyrum ekki fréttir af leiðum íslenskra og erlendra stjórnvalda til að losa sig við flóttafólk. Nú síðast hafa Bretar ákveðið að senda flóttamenn sem hafa lagt sig í stórhættu við að komast yfir Ermarsund til Rúanda. Fyrst við getum ekki sameinast um að tryggja öllu fólki stjórnarfar laust við kúgun og yfirgang og leggja af alla vopnavæðingu og stríðsrekstur getum við þá ekki að minnsta kosti sameinast um að tryggja þeim sem flosna upp vegna slíkra aðstæðna skjól og leyfi til að byggja upp gott líf að nýju?