Svalt og sindrandi rafpopp

Mynd með færslu
 Mynd: Heiðrún Anna

Svalt og sindrandi rafpopp

16.06.2022 - 10:00

Höfundar

Melodramatic er fyrsta sólóplata Heiðrúnar Önnu Björnsdóttur sem kallar sig hér heidrunna. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Heiðrún Anna hefur verið virk í tónlistinni í áratugi en fyrst tók maður eftir henni í hljómsveitinni Cigarette á tíunda áratugnum. Seinna átti hún eftir að stofna hljómsveitina Gloss sem reyndist mikið bransaævintýri. Heiðrún býr í London árið um kring hvar hún starfar að tónlistinni og er Melodramatic hennar fyrsta sólóplata, unnin með upptökustjórnandanum Liam Howe.

Heiðrún nær að flétta saman ýmsum þáttum í tónlistinni. Melankólískt skandípopp með furðublæ frá Cardigans rennur saman við franska strauma, sjá t.d. nýjustu verk Charlotte Gainsbourg. Undir gárar svo smekkleg rafpoppsmotta sem tekur til níunda og tíunda áratugarins og heyra má áhrif frá frumkvöðlum eins og Pet Shop Boys og jafnvel Madonnu, sérstaklega þegar hún sigldi inn í tíunda áratuginn.

Platan rúllar með þessu hætti meira og minna. „Borderline“ opnar plötuna, grípandi lag og söngrödd Heiðrúnar leiðir það. Röddin er með seyðandi sírenubrag og eilítið til baka, svona kaldhömruð svalheit sem poppstjörnur þurfa að búa yfir! Fyrri helmingur plötunnar tikkar meira og minna með þessum brag. „Erasing you“ er flott, býr yfir þessum stálkalda anda sem fyrrnefnd Gainsbourg hefur verið að vinna með. „No Valium“ er svo nokkurs konar millispil, rólegheitaballaða með gítarslætti og slagverki. Vel heppnað. Titillagið tekur þá við og platan rúllar aftur inn í það skapalón sem var í upphafi. Of oft minnir eitt lag á annað, einhvern karakter eða uppbrot hefði þurft til í meiri mæli verður að viðurkennast. Ekkert lag hérna er beinlínis slæmt en einsleitnin keyrir um þverbak á stundum.  

Heilt yfir sæmilega aðlaðandi nútímapopp sem líður þó fyrir fábreytileika í lagasmíðum. Hljóðheimurinn sem slíkur er þó firnavel heppnaður þar sem við höfum hvasst, kalt og töff rafpopp og til þess séð að hlutirnir séu sæmilega strípaðir út í gegn. Söngrödd Heiðrúnar, eins og ég nefndi, styður vel við þá pakkningu.