Mynd: EPA-EFE - Italian Gov't Press Office/ANSA

Macron, Scholz og Draghi á leið til Kænugarðs
16.06.2022 - 05:44
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Mario Draghi forsætisráðherra Ítalíu eru nú á leið í heimsókn til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu. Þar munu þeir funda með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu.
Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogarnir hittast frá því Rússar hófu innrás í Úkraínu í lok febrúar. Ekki var tilkynnt formlega um heimsóknina en þýskir fjölmiðlar segja að leiðtogarnir hafi farið frá Póllandi með lest í morgun og séu á leið yfir landamærin. Ekki liggur fyrir hver tilgangur fundarins er annar en að sýna Úkraínsku þjóðinni stuðning í baráttunni við Rússneska innrásarherinn.
Dregur fljótt til tíðinda um ESB-umsókn
Þá má vænta álitsgerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvort Úkraína fái formlega stöðu umsóknarríkis í sambandið fljótlega. Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnarinnar hefur sagst bjartsýn um að það gangi upp, en Zelensky hefur þrýst mjög á að landið fái flýtimeðferð í ljósi aðstæðna.