Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég var að læra alls konar nýtt í þessari ferð“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var að læra alls konar nýtt í þessari ferð“

16.06.2022 - 11:30

Höfundar

Þeir Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson tóku sig til og heimsóttu landsliðskonurnar í knattspyrnu þar sem þær æfa víðs vegar um Evrópu. Þeir félagar eru þaulvanir að ferðast saman en eru loksins hættir að gista í sama herbergi.

Félagarnir úr Hraðfréttum, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson munu hita landsmenn upp fyrir Evrópumótið í knattspyrnu kvenna í júlí með sjónvarpsþáttunum Förum á EM. Í þáttunum hitta þeir leikmenn landsliðsins og fá innsýn í líf þeirra innan sem utan vallarins. Þættirnir hófu göngu sína síðasta föstudag og verða þeir fjórir talsins.  

Gaman að kynnast lífi landsliðskvenna 

„Þetta er þáttur þar sem við erum að kynnast stelpunum okkar, þessum stelpum sem eru að fara að sigra heiminn í júlí þegar mótið hefst,“ segir Benedikt í samtali við Guðrúnu Dís Emilsdóttur og Rúnar Róbertsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Þeir Fannar og tveir tæknimenn lögðu upp í stutta reisu og heimsóttu landsliðskonurnar þar sem þær spila, æfa, eiga heima og keppa. 

Förin tók þá meðal annars til Bretlandseyja, Frakklands og Noregs og var ekkert flogið heim til Íslands á milli. „Þetta var mjög skemmtilegt, mikið af flugum reyndar og lestum. En virkilega gaman,“ segir Fannar. „Það er líka svo gaman að sjá æfingarnar hjá þeim og hvernig þær búa og kynnast fólkinu þeirra.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fannar ræddi við þær Cecilíu Rán Rúnarsdóttur, Glódísi Perlu Viggósdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í München

„Ég var bara í sjokki“ 

Strákarnir voru uppnumdir af þeim aðstæðum sem stelpurnar spila við. „Þetta er mismunandi eftir löndum en yfirleitt er þetta bara stórkostlegt,“ segir Benedikt og tekur til dæmis þýsku borgina München. „Þetta er bara rugl professional. Ég var bara í sjokki,“ segir hann. Kvennaliðið hefur gríðarlega stórt svæði út af fyrir sig þar sem Benedikt hélt að allir væru saman, konur og karlar. Þar spila þrjár landsliðskonur en það eru þær Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.  

Einnig fannst þeim áhugavert að fara út og hitta stelpurnar og kynnast þeirra rútínu. „Sérstaklega þar sem ég veit voðalega lítið um fótbolta, hvort sem það er karla eða kvenna,“ segir Fannar. „Ég var að læra alls konar nýtt í þessari ferð. Og núna þekkir maður þessar stelpur mjög vel og er orðinn mjög spenntur fyrir EM og hlakkar til að fylgjast með þeim.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Benedikt ræddi við Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í Bergen

Eru hættir að gista saman í herbergi 

Þeir Benedikt og Fannar eru alvanir að ferðast saman bæði í skemmti- og vinnuferðum. „Ég held að ég hafi ekki farið með neinum jafn oft til útlanda og honum Benna,“ segir Fannar. „En við erum reyndar farnir að sofa í sitthvoru herberginu núna.“ Fyrst hafi þeir ávallt deilt herbergi og jafnvel rúmi en fyrir tveimur árum ákváðu þeir að nóg væri komið af því. „Maður vill taka símtöl við konuna og krakkana í friði, ekki hafa Benna við hliðina á manni í því.“ 

„Við vorum líka töluvert yngri og þá var meiri stemning að fara út,“ segir Benedikt, þá hafi verið skemmtilegra að deila herbergi. „Benni sefur líka svo laust, það má varla snúa sér á hliðina og þá vaknar hann,“ bætir Fannar kumpánlega við.  

Besta landslið kvenna til þessa? 

„Þessar stelpur eru orðnar svo miklir atvinnumenn,“ segir Benedikt. „Það er það sem kom okkur svo mikið á óvart. Þær eru svo rosalega pró. Bæði hvernig aðstaðan er og hvernig þær tala.“  

„Vandamálið eins og við öll vitum er að þær eru bara á svo miklu lægri launum en karlarnir. Og það er pirrandi því þær eru að leggja nákvæmlega sama á sig,“ segir Benedikt. Hann tekur þó fram að landsliðskonurnar séu jákvæðar fyrir mótinu og finni fyrir miklum áhuga frá áhorfendum. „Og margar segja að þetta sé svona skemmtilegasta og mögulega besta landslið kvenna sem við höfum átt.“ 

Þættirnir verða á dagskrá á hverju föstudagskvöldi klukkan 19:40 á RÚV fram að Evrópumótinu í knattspyrnu kvenna. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Erfitt þegar dóttirin fór út í atvinnumennsku