Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mar sem jafnar sig fljótt

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Mar sem jafnar sig fljótt

15.06.2022 - 14:37
Landsliðskonan Elín Metta Jensen hefur litlar áhyggjur af meiðslunum sem hún varð fyrir í leik með Val í Bestu deild kvenna í gærkvöldi. Ólíklegt er að meiðslin munu hafa áhrif á þátttöku hennar á Evrópumótinu í Englandi í næsta mánuði.

„Þetta var slæmt högg sem ég fékk á nárasvæðið og ég stífnaði öll upp. En þetta er miklu betra í dag og ég er nokkuð bjartsýn á að þetta séu ekki alvarleg meiðsli,“ segir Elín Metta Jensen, leikmaður Vals og landsliðskona í knattspyrnu. „Ég ætla að hvíla í dag en svo eru bara æfingar um helgina,“ segir hún en næsti leikur hjá Val er gegn Þrótti frá Reykjavík á sunnudag og svo kemur landsliðið saman á mánudag.

„Það er alltaf slæmt að fá svona högg og stundum er það á þannig stöðum að það verður erfitt að sparka í boltann, en þetta er bara mar sem ég vona að muni jafna sig fljótt þó þetta hafi ekki litið vel út,“ segir Elín.

Það er þó aldrei gaman að meiðast, hvað þá svo stuttu fyrir stórmót með landsliðinu. „Mér fannst þetta mjög leiðinlegt, sérstaklega í þessum leik. Þetta var hörkuleikur og við einu marki yfir,“ segir Elín sem var svekkt að þurfa að fara út af. „En sem betur fer var þetta ekkert alvarlegt og ég hlakka til að hitta landsliðið.“

Í góðu leikformi

Elín missti af nokkrum leikjum með landsliðinu í vetur. „Mér finnst ég vera í góðu standi og hefur liðið vel á vellinum með Val. Það er svo bara þjálfarans að meta í hvaða hlutverki maður verður. Ég fer þarna út til þess að hjálpa liðinu sama í hvaða hlutverki það verður,“ segir Elín og bætir við að mikill heiður sé að vera valin í liðið sem fer á Evrópumótið. „Að spila fótbolta með ótrúlega góðum knattspyrnukonum er bara gleði,“ segir Elín Metta Jensen að endingu.