Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ítreka ákall eftir öflugri vopnum til Úkraínu

epa10013243 Dutch Prime Minister Mark Rutte (R) with Prime Minister Mette Frederiksen (L) of Denmark (L) and NATO Secretary General Jens Stoltenberg (C) at the Catshuis, prior to a meeting, together with other heads of government and NATO Secretary General Jens Stoltenberg, in preparation for the NATO summit in Madrid, in The Hague, The Netherlands, 14 June 2022. The discussions include the Russian invasion of Ukraine.  EPA-EFE/SEM VAN DER WAL
Það fór vel á með þeim Jens Stoltenberg (m) og gestgjöfunum Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, við upphaf fundarins í Haag. Mynd: EPA-EFE - ANP
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir Úkraínuher þurfa á mun fleiri og öflugri þungavopnum að halda og brýnir Vesturlönd til að svara kalli Úkraínumanna eftir slíkum búnaði. Forsætisráðherra Póllands tekur í sama streng og Úkraínuforseti ítrekaði í gærkvöldi ákall sitt eftir fleiri og öflugri vopnum.

„Vesturlönd eiga að senda fleiri þungavopn til Úkraínu, svo að [Úkraínumenn] geti varist sókn Rússa í austurhluta landsins,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO á fréttafundi í Haag í Hollandi í gærkvöld, í framhaldi af fundi leiðtoga nokkurra NATO-ríkja þar í borg.

Hollendingar og Danir buðu til fundarins, sem er liður í undirbúningi fyrir leiðtogafund bandalagsins í lok júní. Leiðtogar Póllands, Rúmeníu, Lettlands, Belgíu og Portúgals tóku þátt í fundinum.

Stoltenberg sagði NATO og samstarfsríki þess þegar hafa sent töluvert af þungavopnum til Úkraínu og byrjuð að „bæta í“ vopnasendingar sínar. Þá muni stýrihópur sambandsins um málefni Úkraínu koma saman í Brussel í dag, miðvikudag, til að skipuleggja frekari aðstoð, þar á meðal í formi þungavopna.  „Því [Úkraínumenn] reiða sig algjörlega á það, til að geta varist þessari grimmilegu innrás Rússa,“ sagði Stoltenberg.

Trúverðugleiki Vesturlanda í húfi

Forsætisráðherra Póllands, Mateus Morawiecki, talaði á sömu nótum og Stoltenberg og sagði Vesturlönd ekki veita Úkraínu nógan stuðning.

„Við höfum ekki gert nóg til að verja Úkraínu, til að styðja Úkraínsku þjóðina, styðja frelsi hennar og fullveldi,“ sagði forsætisráðherrann á fréttafundinum. „Og það er þess vegna sem ég bið ykkur, sem ég fer fram á að þið gerið miklu meira til að koma vopnum, stórskotaliðskerfum, til Úkraínu. Þeir þurfa að verja land sitt,“ sagði Morawiecki.

Morawiecki sagði Vesturlönd munu „glata öllum trúverðugleika“ ef Úkraína tapar stríðinu gegn Rússum. „Það væru fullkomin þrot og hörmulegur vitnisburður um Evrópusambandið, um gildi okkar og um NATO.“

Vantar fullkomnari eldflaugavarnakerfi

Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti sagði í daglegu sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöld, að Úkraínuher hafi orðið fyrir miklu og sársaukafullu mannfalli í orrustunni um borgina Sjevjerodonetsk. Eins og þeir Stoltenberg og Morawiecki kallaði hann eftir stórauknum stuðningi Vesturlanda, einkum í formi vopnasendinga. Nefndi hann sérstaklega fullkomnari og öflugri stórskotaliðs- og eldflaugavarnakerfi en Úkraína býr yfir í því sambandi.