Fréttaveita AFP greinir frá og segir bankann fara í þessar afgerandi aðgerðir með það að markmiði að draga úr aðgengi að lánsfjármagni en ekki síður til að stemma stigu verðbólgu í Bandaríkjunum.
Verðbólga þar vestra mælist nú 8,6% á ársgrundvelli og hefur ekki verið meiri í 40 ár. Það merkir að almennar vörur og þjónusta sé um 8,6% dýrari en á sama tíma árið 2021.
Jerome Powell seðlabankastjóri, sagði á fréttamannafundi síðdegis að stjórnendur bankans væru staðráðnir í því að sporna við frekari verðbólgu.
Markmið peningastefnunefndar bankans er 2% og því allnokkuð í land svo því markmiði verði náð. Hagvöxtur mælist 1,7% sem er umtalsvert lægra en þau 2,8% sem greiningaraðilar höfðu spáð.
Hökt í aðfangakeðjunni
Vöru og verðhækkanir, sérstaklega á matvælum, hafa haldið áfram víða um heim vegna hökts í aðfangakeðjunni í kjölfar heimsfaraldursins og hrávöruverð. Staða faraldursins í Kína og þær aðferðir sem stjórnvöld þar í landi hafa beitt til þess að leitast við að hefta útbreiðslu faraldursins, hafa einnig aukið á höktið í aðfangakeðjunni á heimsvísu.
Þá hefur innrás Rússlands í Úkraínu haft áhrif á hrávöruverð og því má búast við frekari vaxtahækkunum seðlabanka Bandaríkjanna á næstunni, að sögn AFP, enda ekki ljóst hvernig málin þróast í Úkraínu á næstunni.
Bensínverð er jafnframt í hæstu hæðum og er gallonið komið yfir 5 dollara í Bandaríkjunum. Hér heima er þróunin sögð skuggaleg og án fordæma, en bensínlítrinn fór í fyrsta sinn yfir 350 krónur í gær. Kallað er eftir aðgerðum stjórnvalda til þess að sporna við frekari hækkunum.