Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Náttúran á ekki að líða fyrir hrossakaup“

13.06.2022 - 09:27
Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Mynd: Steingrímur Dúi Másson - RÚV
Kjalölduveita og Héraðsvötn voru færð úr verndarflokki í biðflokk sem hluti af samkomulagi á Alþingi til að koma rammaáætlun í gegnum þingið, segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Náttúran eigi ekki að þurfa að líða fyrir slík hrossakaup.

Klofin í afstöðu

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar birti tillögu sína fyrir helgi þar sem lagt er til að bæði Kjalöldveita, sem yrði í efri hluta Þjórsár, og Héraðsvötn í Skagafirði yrðu færð í biðflokk og því gæfist tækifæri til að skoða þessa virkjunarkosti betur.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis er klofin í afstöðu sinni til málsins og annar af tveimur fulltrúum vinstri grænna skrifaði ekki undir niðurstöðu nefndarinnar. 

Rætt var við Auði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segir að þarna sé verið að breyta því sem verkefnastjórn rammaáætlunar komst að án þess að leggja fram gögn eða færa rök sem haldi vatni. Þarna séu vatnasvæði nánast óspillt, flæðiengjar og vistkerfi sem séu sérstaklega verðmæt. 

„Þessir tveir kostar sem þeir færa úr vernd yfir í bið hafa sýnt, eftir gríðarlega mikla vinnu, svo verðmætir út frá náttúruverndarsjónarmiðum að þeir eiga heima í verndarflokki. Tilgangurinn með því að að færa þetta yfir í biðflokk er algerlega óljós, annað heldur en að það hafi þurft að semja til að koma frumvarpinu í gegn og það eru engin fagleg rök, það eru engar ástæður að það sé verið að semja um þetta, náttúran á ekki að þurfa að líða fyrir svona hrossakaup.“

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV