Hlutfall karla og kvenna hnífjafnt á Norðausturlandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí er hlutfall karla og kvenna meðal kjörinna aðal- og varafulltrúa hnífjafnt á Norðausturlandi, þegar reiknað er meðaltal allra sveitarfélaga landshlutans.

Var 8 prósent munur 2018

Þetta kemur fram á vef Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Eftir kosningarnar 2018 var hlutfall karla 54 prósent og kvenna 46 prósent kjörinna fulltrúa.

Skipting er töluvert mismunandi á milli sveitarfélaga. Mesta breytingin átti sér stað á Langanesi. Á síðasta kjörtímabili voru konur einungis 28 prósent aðal- og varafulltrúa í Langanesbyggð en 44 prósent í Svalbarðshreppi. Í sameinuðu sveitarfélagi þessara tveggja eru konur 57 prósent kjörinna fulltrúa.

Hörgársveit og Þingeyjarsveit eru nú einu sveitarfélög landshlutans þar sem karlar eru í meirihluta.