Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rammaáætlun klýfur umhverfis- og samgöngunefnd

12.06.2022 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skagafjörður
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis er klofin í afstöðu sinni til verndar og orkunýtingar landsvæða, og annar af tveimur fulltrúum Vinstri grænna skrifar ekki undir niðurstöðu nefndarinnar. Meirihluti nefndarinnar leggur til að Kjalölduveita og Héraðsvötn verði færð úr verndarflokki í biðflokk og þessir kostir verði rannsakaðir betur.

 

Þriðji áfangi rammaáætlunar hefur lengi verið í meðförum Alþingis og stjórnkerfisins; þetta er í fjórða sinn sem málið kemur fyrir þingið.

Umhverfis- og samgöngunefnd - eða meirihluti hennar - birti sína tillögu í gær, sem virðist vera tilraun til málamiðlunar og biðstöðu hvað varðar umdeilda kosti. Lagt er til að virkjanakostir sem áður voru í ýmist nýtingar- eða verndarflokki verði færðir í biðflokk, og þeir verði rannsakaðir betur. Það gildir til dæmis um Kjalölduveitu og Héraðsvötn sem meirihlutinn vill að fari úr verndarflokki í biðflokk, og sömuleiðis um Skrokköldu og virkjanir í neðri hluta Þjórsár, sem meirihlutinn vill að verði færðar úr nýtingarflokki í biðflokk.

„Ef þarf að stækka biðflokkinn, eins og við erum að gera, með flutning á átta kostum eins og við erum að gera, til að ná fram afgreiðslu á honum, þá stend ég alveg heilshugar að þeirri afgreiðslu með þeim rökum sem eru í nefndarálitinu, og ítreka að það sem flutt er í biðflokk er bara að fara aftur í endurmat,“ segir Orri Páll Jóhannsson, annar af tveimur fulltrúum Vinstri grænna í nefndinni. 

Hvað flutning á virkjanakostum í Héraðsvötnum og Kjalöldu í biðflokk varðar segir Orri að þar séu rík náttúruverndarsjónarmið - en að skiptar skoðanir séu um báða kostina; þá þurfi að rannsaka betur. 

„Því er það tillaga nefndarinnar að verkefnisstjórn - og það er hennar verkefni - endurskoði og endurmeti þessa kosti, á grundvelli þess tíma sem hefur liðið síðan að fyrri verkefnisstjórn gerði tillögu um þetta. Það þýðir alls ekki að þessir kostir, sér í lagi þeir sem eru fara úr vernd, fari lóðbeint í nýtingu; bara alls ekki.“

Hinn fulltrúi VG í nefndinni, Bjarni Jónsson, stendur ekki að áliti meirihlutans  og hefur lýst því yfir að hann sé ósáttur við að Héraðsvötn séu flutt úr verndarflokki í biðflokk. Ekki náðist í Bjarna fyrir fréttir en Orri segir að þessi afstaða Bjarna hafi legið fyrir í langan tíma. 

„Ég hef fullan skilning á því, og það er auðvitað ekkert einsdæmi að stjórnarþingmenn greiði ekki allir atkvæði sem einn. Við erum auðvitað bara bundin af sannfæringu okkar og við höfum alveg heyrt og séð það áður í sögunni að það eru kannski ekki alveg allir stjórnarþingmenn sem standa að tillögum.“
 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV