Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Finnar ætla ekki í NATO án Svía

12.06.2022 - 16:22
epa10009609 Finland President Sauli Niinisto (R) and Nato Secretary General Jens Stoltenberg (L) during a press conference at The Kultaranta Talks in Naantali Finland, Finland, 12 June 2022. The Kultaranta Talks is being hosted by President Sauli Niinisto on 12-13 June 2022. This year, the title of this foreing and security policy discussion event is 'Responsible, strong and stable Nordic region'. The main guests are NATO Secretary General Jens Stoltenberg and Prime Minister of Norway Jonas Gahr Store at the Presidential summer residence Kultaranta, located on the island of Luonnonmaa.  EPA-EFE/MAURI RATILAINEN
 Mynd: EPA
Finnar ætla ekki að ganga í Atlantshafsbandalagið, NATO, ef aðild Svía gengur ekki eftir. Þetta sagði Sauli Niinistö, forseti Finnlands, á blaðamannafundi í dag. Öll aðildarríkiaðildarríki NATO, nema Tyrkland, styðja inngöngu ríkjanna í bandalagið. Tyrkir hafa sett ýmis skilyrði fyrir því að Finnar og Svíar fái aðild. 

Niinistö hélt blaðamannafund í Helsinki í dag ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Stoltenberg er í heimsókn í Finnlandi til að ræða aðild Finna og Svía að bandalaginu og stöðuna í Úkraínu. Niinistö sagði þar að Finnar og Svíar væru bandamenn og að Finnar myndu fylgja Svíum, fengju þeir ekki inngöngu í NATO. 

Verður að taka tillit til kröfu Tyrkja

Stoltenberg sagði mikilvægt að Svíar og Finnar fengju inngöngu í bandalagið en að aðild Tyrkja skipti einnig miklu máli og ástæða væri til að taka kröfur þeirra til skoðunar. NATO ynni nú hörðum höndum að því að koma á samkomulagi Tyrkja við Svía og Finna. 

„Við verðum að taka til skoðunar áhyggjur allra aðildarríkja, þar á meðal áhyggjur Tyrkja af hryðjuverkasamtökunum PKK,“ sagði Stoltenberg.

Allar NATO þjóðir verða að samþykkja inngöngu

Tyrkir hafa lagt fram lista yfir öryggiskröfur sem þeir segja að Svíar verði að fallast á ef NATO-aðild þeirra verði að veruleika. Þar á meðal að þeir slíti tengsl við tyrknesk samtök sem ráðamenn í Ankara skilgreina sem hryðjuverkasamtök.