Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Umdeildar ófrjósemisaðgerðir á norðurhveli

11.06.2022 - 08:30
Skurðlæknir á skurðstofu.
 Mynd: Pixabay
Þetta helst rifjar upp Íslenska ríkið hefur greitt skaðabætur til fólks sem var gert ófrjótt án vitundar sinnar eða samþykkis, á grundvelli úreltra laga. Ófrjósemisaðgerðir hafa verið gerðar á um 60 íslenskum konum án þess að þær veittu fyrir því samþykki. Þetta helst rifjar upp umdeildar ófrjósemisaðgerðir á Íslandi í tenglsum við ofbeldið sem Danir beittu grænlenskum stúlkum með getnaðarvarnarlykkjunni.

Ég man mest eftir tækjunum sem skárust upp í móðurlífið mitt. Þetta var eins og hnífstunga. Ég hef bælt minningarnar niður í öll þessi ár. 
- Naja Lyberth

Þetta eru lýsingar grænlenskrar konu á hvernig lækningatæki skárust upp í móðurlíf hennar þegar hún var fjórtán ára gömul og getnaðarvarnarlykkjunni var komið fyrir inni í henni. Hún ræðir við danska ríkisútvarpið í nýju hlaðvarpi, Spiralkampagnien, eða Lykkjuherferðinni. Konan er ein tæplega 4.500 grænlenskra ungra stúlkna og kvenna sem urðu fyrir gífurlegu ofbeldi af hendi danskra heilbrigðisyfirvalda á árunum 1966 til 1970 þegar ákveðið var að koma lykkjunni fyrir í ungum stúlkum - í átaki til að hægja á fólksfjölgun í landinu. 

Fæðingatíðni hríðféll

Á þessum fjórum árum, 66 til 70, voru um 9000 konur í landinu á barneignaraldri. Danir gerðu þarna helminginn ófrjóan með inngripi sem á sér líklega fáar hliðstæður í heiminum. Og það virkaði - eðlilega. Fæðingartíðnið hríðféll á næstum fimm árum og árið 1974 var hún komin niður fyrir það sem hún hafði verið tuttugu árum fyrr. Og hún er svipuð enn þann dag í dag, eftir smá uppsveiflu á seinni hluta níunda áratugarins. 

Vitgrannir óhæfir til barneigna

Frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar var lagt fram á Alþingi 1937. Það fór fyrirstöðulaust í gegnum þingið og var samþykkt af öllum flokkum, einróma og athugasemdalaust. Frumvarpið varð að lögum í janúar 1938, „um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt“. Skilgreiningin á hinum „óhæfu til barneigna“ var víð og náði yfir fólk sem taldist bæði vitgrannt og „andfélagslegt“. Undir þann hatt féllu til dæmis alkóhólistar, vændiskonur, afbrotamenn eða fátækt, barnmargt fólk, sérstaklega konur, sem ekki þótti kunna fótum sínum forráð þegar kom að því að takmarka viðkomu sína, eins og það er orðað, segir í skýrslu Unnar Birnu Karlsdóttur sagnfræðings, um ófrjósemisaðgerðir á Íslandi, sem hún vann fyrir Alþingi árið 2002. 

120 aðgerðir vegna andlegs vanþroska eða geðveiki

Fyrsta aðgerðin var skráð árið sem lögin voru sett og sú síðasta árið 1975, þegar ný lög tóku gildi. Alls voru framkvæmdar 726 ófrjósemisaðgerðir. Þar af voru 722 í flokknum vananir, og 4 aðgerðir á körlum í flokknum afkynjanir, þ.e. skurðaðgerð þegar kynkirtlar eru numdir brott. 98 prósent þeirra sem gengust undir ófrjósemisaðgerðir voru konur. Í 120 aðgerðum var andlegur vanþroski eða geðveiki sögð meginástæða aðgerðar.

„Norðurlöndin voru búin að taka upp þessa löggjöf, það hefur greinilega þótt rétt og skylt að veita fólki sömu, af því að þetta var ekki bara þessi hlið sem okkur fannst vera á svo gráu svæði. Þetta var líka lausn fyrir fjölda fólks, að fá að fara í ófrjósemisaðgerð. Fyrir tíma getnaðarvarna. Eins og kemur fram í minni skýrslu þá voru flestar aðgerðirnar framkvæmdar á konum sem voru bara að bugast úr barnamergð og sjúkdómum. Það er eitt af því sem maður sér þegar maður rannsakar þessi gögn að baki þessum aðgerðum, hvað líf kvenna var alveg ofboðslega erfitt á þessum áratugum áður en pillan kom. Við getum ekki ímyndað okkur það í dag,“ segir Unnur Birna. 

60 þúsund sænskar konur neyddar í aðgerð

Greint var frá því í norrænum fjölmiðlum um miðjan tíunda áratuginn að um 60 þúsund sænskar konur hafi verið þvingaðar í ófrjósemisaðgerðir á árunum 1946 til 1976. Ein kvennanna segir í blaðaviðtali að hún hafi reynt að fara fram á skaðabætur seinna meir, en var neitað þar sem lögum hafði verið fylgt í hvívetna. Það var þó annað uppi á teningnum hér, því árið 1996 var íslenska ríkið dæmt til að greiða einstaklingi skaðabætur fyrir ófrjósemisaðgerð sem gerð var á gildistíma gömlu laganna og hafði verið gerð án vitundar og samþykkis viðkomandi. Sömuleiðis hefur verið samið við einstaklinga um bótagreiðslur vegna ófrjósemisaðgerða sem þeir gengust undir án sinnar vitundar í krafti úreltra viðhorfa og lagabókstafa. 

Danir hljóti að greiða skaðabætur

Og svo er bara spurning hvort frændur okkar þurfi að svara almennilega fyrir gjörðir sínar á Grænlandi. Unnur segir að það hljóti að vera. 

„Og þetta á auðvitað eftir að fara lengra hjá Dönum og hlýtur að verða rannsakað. Ég tel víst að það hljóti að verða greiddar miskabætur, ég trúi ekki öðru. Þó að það auðvitað bæti engum neitt, en það er þó allavega leið til þess að biðjast afsökunar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Sögufélag
Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur vann skýrslu fyrir Alþingi 2002 um ófrjósemisaðgerðir á Íslandi á árunum 1938 til 1975.
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður