Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vilja efla varnir á landamærum Finnlands og Rússlands

Mynd með færslu
 Mynd: Heikki Haapalainen - YLE
Finnska ríkisstjórnin hyggst endurskoða landamæralöggjöf landsins með það fyrir augum að heimila auknar varnir á landamærunum að Rússlandi. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu.

Landamæri Finnlands og Rússlands eru um 1.300 kílómetra löng og liggja að langmestu leyti um mannlausar víðáttur og skógi vaxnar óbyggðir og óvíða merki að sjá um hvar mörkin liggja.

Þetta hefur ekki þótt tiltökumál til þessa, en eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu hefur orðið breyting á því eins og mörgu öðru í sambúð grannríkjanna. Þess vegna huga finnsk stjórnvöld nú að því að reisa varnarmannvirki af ýmsu tagi á ákveðnum hlutum landamæranna, og það kallar á lagasetningu.

Óttast að hópar flóttafólks verði fluttir að landamærunum 

Finnar hafa einkum áhyggjur af því að Rússar fari að beita flóttafólki og hælisleitendum fyrir sig sem einskonar pólitísku vopni, með því að flytja þá að landamærum Finnlands í stórhópum og skilja þá þar eftir.

Þetta hafi Hvítrússar gert í deilunum við nágrannaríki sín í fyrra, þegar þeir fluttu flóttafólk frá Miðausturlöndum, Afganistan og Afríku að landamærum Póllands.

Nýleg skoðanakönnun sem YLE gerði meðal finnskra þingmanna sýnir mikinn stuðning við hugmyndir um að auka varnir á landamærunum. Þau sem eru á þessari skoðun telji þó ekki raunhæft að ætla að reisa girðingu eftir landamærunum endilöngum, heldur beri að leggja áherslu á tiltekin, afmörkuð svæði.

Og í nýju löggjöfinni, ef af verður, þarf líka að gera ráð fyrir umfangsmikilli vegalagningu til að auðvelda landamæraeftirlitið, segir í frétt Reuters.