Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Trump „tendraði bálið“ sem leiddi til árásar á þingið

epa10005071 Vice Chairperson and Republican Representative Liz Cheney of Wyoming delivers he opening remarks during the select committee investigating the January 6th Capitol attack in the Cannon House Office Building in Washington DC, USA, 09 June 2022. The committee will hold at least five more public hearings in the coming weeks.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Varaformaður rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings sem rannsakað hefur árásina á þinghúsið í janúar á síðasta ári, aðdraganda hennar og eftirmál, segir engan vafa leika á því að Donald Trump hafi verið helsti og mikilvægasti hvatamaður árásarinnar; hann hafi tendrað bálið sem til hennar leiddi.

Fyrstu opinberu vitnaleiðslur rannsóknarnefndarinnar fóru fram í Washington í gærkvöld og var sjónvarpað beint á öllum helstu fréttastöðvum Bandaríkjana nema Fox News. Liz Cheney, þingmaður Repúblikana og varaformaður nefndarinnar, var ómyrk í máli í opnunarávarpi sínu, þar sem hún fór yfir helstu markmið og niðurstöður rannsóknarinnar til þessa.

Skipulögð árás að undirlagi Trumps

Sagði hún alveg ljóst að tilgangur árásarinnar hafi verið að hindra staðfestingu þingsins á réttmætu kjöri Joes Bidens í embætti Bandaríkjaforseta í trássi við landslög og vilja Bandarísku þjóðarinnar. Hún sagði heldur engan vafa leika á því að árásin  hafi ekki verið eitthvað sem spratt af sjálfu sér í hita leiksins, heldur nákvæmlega skipulögð aðgerð að undirlagi Trumps. 

„Um þetta verður ekki deilt,“ sagði Cheney; „þau sem réðust inn í þinghúsið og börðust við lögregluna klukkustundum saman, voru knúin til verka af því sem Trump forseti hafði sagt þeim; að kosningunum hefði verið stolið og að hann væri réttmætur forseti. Trump kallaði á múginn, safnaði múgnum saman, og tendraði bálið sem leiddi til þessarar árásar.“

Gerði ekkert til að stöðva árásina

Síðar rakti Cheney fyrir áheyrendum að á meðan á árásinni stóð hafi Trump ekki lyft fingri til að stöðva hana eða kalla eftir aðstoð. Hann hafi hvorki haft samband við lögreglu, þjóðvarðlið, varnarmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið né ráðuneyti heimavarna, þrátt fyrir að honum bæri skylda til þess og þrátt fyrir að flestir nánustu ráðgjafar hans hafi ítrekað brýnt hann til þess.

Varaforsetinn Mike Pence, sem var í þinghúsinu þegar á það var ráðist, sá alfarið um þá hlið mála og gerði allt það sem Trump neitaði að gera, sagði formaður herforingjaráðs Bandaríkjahers, Mike Milley, í vitnisburði sínum. 

Starfsmannastjóri Trumps hafi hins vegar ekki haft annað til málanna að leggja en það, að gæta þyrfti þess vandlega við alla upplýsingagjöf að þetta kæmi ekki illa út fyrir forsetann. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV