Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Samsærið virkt og lýðræðið enn í hættu

epa10005168 A general view shows the US House Select Committee hearing to Investigate the January 6 attack on the US Capitol, in the Cannon House Office Building, on Capitol Hill, in Washington, DC, USA, 09 June 2022.  EPA-EFE/MANDEL NGAN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Í kvöld fóru fram fyrstu opinberu vitnaleiðslur rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings, sem hefur verið að rannsaka árásina á þinghúsið í Washington á síðasta ári, aðdraganda hennar og eftirmál. Formaður nefndarinnar segir árásina hafa verið hápunktinn á tilraun Donalds Trump til valdaráns.

Vitnaleiðslunum var sjónvarpað beint á öllum stærstu fréttastöðvum Bandaríkjanna nema Fox News. Í útsendingunum voru einnig spilaðar áður óbirtar upptökur frá árásinni og farið yfir helstu niðurstöður þeirra rannsókna sem þegar hafa farið fram. 

Í frétt AFP segir að málflutningur nefndarinnar miði að því að sýna fram á að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og margítrekaðar, falskar fullyrðingar hans um kosningasvik og „stolinn“ kosningasigur Joes Biden hafi verið kjarninn í því samsæri sem knúði æsta fylgjendur hans til að ráðast á þinghúsið hinn 6. janúar 2021, daginn sem sameinað Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta kjör Bidens í forsetaembættið.

Tilraun til valdaráns og lýðræðið enn í hættu

Formaður rannsóknarnefndarinnar, Bennie Thompson, sagði að atburðirnir 6. janúar hafi verið „hápunktur tilraunar til valdaráns. Þetta var purkunarlaus tilraun til að steypa ríkisstjórninni af stóli, eins og einn árásarmannanna sagði skömmu eftir árásina.“ Og Donald Trump hafi verið aðal hvatamaðurinn að þeirri tilraun.

Thompson sagði nefndina hafa aflað „haldgóðra sönnungargagna“ um að færsla sem Trump birti á Twitter 19. desember 2020 hafi „virkjað einstaklinga í [þjóðernissinnahreyfingunni] Proud Boys og öðrum öfgahreyfingum“ til aðgerða. Færslan var svohljóðandi: „Stór mótmæli í D.C. 6. janúar. Mætið, þetta verður villt!“

Nefndin mun leitast við að sannfæra og sameina hina klofnu, bandarísku þjóð um að víðtækt og margslungið samsæri hafi verið gert með það fyrir augum að kollvarpa lögmætum úrslitum forsetakosninganna 2020, segir í frétt á vef CNN, samsæri, sem sé enn virkt og miði að því að grafa undan grundvallaratriðum bandarísku stjórnarskrárinnar og lýðræðinu í landinu. 

Þarna er lagt út frá orðum Thompsons í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum skömmuj áður en vitnaleiðslurnar hófust, þar sem hann segir að lýðræðið sé enn í hættu. 

„Samsærið um að ganga gegn vilja þjóðarinnar er ekki að baki. Það er til fólk í þessu landi sem þyrstir í völd en elskar hvorki né virðir það sem gerir Bandaríkin stórkostleg,“ skrifar Bennett. 

Vitnaleiðslurnar í kvöld voru þær fyrstu af mörgum sem fram munu fara næstu vikur.