Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íþyngjandi fyrir spítalann þegar innlögnum fjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Innlögnum á covid-göngudeild Landspítalans hefur fjölgað undanfarna daga. Alls eru nú níu inniliggjandi, þar af einn á gjörgæsludeild. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir að það sé alltaf íþyngjandi fyrir spítalann þegar tilfellum fjölgi og fleiri leggist inn. Mikill viðbúnaður sé á spítalanum til að verja aðra sjúklinga.

Að sögn Más er þetta fólk á öllum aldri, flest með undirliggjandi sjúkdóma eða einstaklingar sem eru í meðferð vegna sjúkdóms. Honum er ekki kunnugt um að neinn erlendur ferðamaður hafi þurft að leggjast inn á deildina undanfarið þrátt fyrir að þeim hafi fjölgað mikið síðustu misseri. 

Líkt og greint var frá í dag hefur smitum farið fjölgandi undanfarna daga. Í þessari viku hafa sjö lagst inn á covid-göngudeild Landspítalans, níu eru inniliggjandi í dag en voru tvö á þriðjudag. „Það hafa komið svona flökt í nýgenginu áður, við höfum farið niður í núll innlagnir. Núna erum við að sjá fleiri innlagnir en undanfarið og við höfum einnig verið að greina fleiri sjúklinga á bráðamóttökunni. 

Óvissuþáttur

Már telur að aukning smita hér á landi sé vegna komu fólks erlendis frá en einnig séu mun færri að beita vörnum eins og að bera andlitsgrímu og spritta hendur. „Óvissuþátturinn er hins vegar mótefnasvar meðal þorra fólks. Hversu lengi eru þessi mótefni verjandi, og: er farið að vatna undir ónæmissvarinu hjá þeim sem smituðust áður?“

Már segir að þó að þetta hljómi ekki sem mikil aukning á innlögnum þá sé þetta afar íþyngjandi fyrir spítalann. „Það er mjög erfitt þegar að leggja þarf inn einstakling, til dæmis með hjartavandamál, þá er sjúklingur með virka sýkingu í kringum mjög viðkvæman hóp og þetta er áskorun í hvert og eitt sinn fyrir spítalann.“ Hann segir að því sé ekki að leyna að smit hafa verið að greinast á deildum spítalans síðustu daga.