Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Harmar þá röskun sem orðið hefur

10.06.2022 - 19:21
Mynd með færslu
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, harmar þá röskun sem orðið hefur í kjölfar vandræða við Bretlandsflug félagsins. Þar hafi félagið lent í aðstæðum sem rekja megi til Brexit og flækjustigs alþjóðasamninga.

Símtal 10 mínútum eftir fyrsta flugtak til Bretlands

„Við fengum óvænt símtal á skrifstofu Niceair 10 mínútum eftir flugtak í jómfrúarflugi félagsins til Bretlands fyrir viku,“ skrifar Þorvaldur Lúðvík á Facebook. „Í símtalinu var okkur tjáð að við fengjum ekki að taka farþega með til Íslands í því flugi þar sem leyfismál væru ekki á hreinu. Þetta kom flatt upp á okkur þar sem þessi mál höfðu aldrei borið á góma í þriggja mánaða ferli með breskum yfirvöldum og ekkert skriflegt hafði borist félaginu.“

Hann segir starfsfólk félagsins hafa síðan þá unnið að því að fá skýringu á því hvað kunni að vera að og útfæra lausnir. Með síðustu lausnir á borðinu seint í gærkvöld hafi þau svör borist að það væri að koma helgi og því ekki tími til að vinna öll mál á svo stuttum tíma.

„Ég harma að hafa valdið röskun á högum fólks“

Í varúðarskyni hafi verið gripið til þess ráðs að aflýsa flugum
Niceair til Bretlands út júní og þau vonist til að leysa þessi mál innan þess tíma. „Ég harma að hafa valdið röskun á högum fólks sem sannarlega ætlar sér að styðja við bakið á okkur en hér lendum við í aðstæðum sem rekja má til Brexit og flækjustigs alþjóðasamninga sem aðild eiga að þrjú þjóðríki og tvö viðskiptabandalög.“

„Við þurftum að koma þessum tíðindum sem fyrst til sem flestra og því var send út fréttatilkynning um hádegisbil. Ekki var búið að senda aflýsingu á flugi á mánudag til farþega og eru einhverjir ósáttir við það, sem ég skil vel, en þetta var mat okkar að ná til sem flestra fyrst,“ segir Þorvaldur Lúðvík meðal annars í yfirlýsingu á Facebook.