Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Covid tilfellum fjölgað undanfarna daga

10.06.2022 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - Rúv
Fleiri hafa greinst með covid hérlendis undanfarna daga en nú greinast á milli 150 til 200 einstaklingar daglega. Aukning hefur verið á komum sjúklinga í áhættuhópum með covid á göngudeild Landspítala en níu eru nú inniliggjandi með sjúkdóminn, þar af einn á gjörgæslu.

Þetta kemur meðal annars fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis. Smitum hefur farið fjölgandi en hlutfall jákvæðra sýna hefur haldist stöðugt síðustu vikur um 7-10 prósent. Því gæti aukning á staðfestum smitum skýrst af aukningu tekinna sýna. Ekki hefur sést aukning á endursmitum

Flest tilfelli sem eru að greinast eru ómíkron afbrigðið BA.2 en einnig greinist afbrigðið BA.5.

Sjö hafa verið lagðir inn á covid göngudeild Landspítalans síðan í byrjun vikunnar. Þrjú voru inniliggjandi á þriðjudag en eru nú níu. 

Fjórða sprautan í boði

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hvetur alla til að þiggja bólusetningu.  Í tilkynningunni segir að allir 16 ára og eldri ættu að vera búin að fá þrjár sprautur og allir 80 ára og eldri, allir íbúar hjúkrunarheimila og allir sem hafa undirliggjandi áhættuþætti ættu að þiggja fjórðu sprautuna. Þá geti þeir sem vilji beðið um að fá fjórðu sprautuna.