Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þarf pólitískt þrek til langtímabreytinga

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Langtímasýn og langtímastefna í geðheilbrigðisþjónustu verður að liggja fyrir og samstaða um hana, segir formaður stjórnskipunarnefndar Alþingis. Það þurfi pólitískt þrek til að gera langtímabreytingar.

Álit meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu var rætt á Alþingi síðdegis og í kvöld. Í skýrslunni eru niðurstöður stjórnsýsluúttektar á stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum, innleiðingu hennar, kostnaði og því hvort settum markmiðum hafi verið náð.

Meginniðurstöður eru að eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu eykst ár frá ári. Geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu sé undir væntingum og bið eftir þjónustu almennt of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Skortur sé á yfirsýn í málaflokknum.

„Að langtímasýn langtímastefna í geðheilbrigðisþjónustu liggi fyrir og um hana sé sem mest samstaða þannig að við séum sammála um að fjármagna þær aðgerðir sem þurfi að ráðast í,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunarnefndar.

Þórunn bætir við að það þurfi pólitískt þrek til að gera langtímabreytingar. Töluverður samhljómur var í máli þingmanna sem bentu á hve alvarlegur vandinn væri og við því verði að bregðast, og líka fordómum og mönnunarvanda svo fátt eitt sé nefnt.

„Samfélagið allt er á því máli að stórefla þurfi geðheilbrigðisþjónustu og ég held að við öll hér inni séum á sömu nótum nú er það okkar að sýna í framkvæmd að við tökum málaflokkinn alvarlega og til afgreiðslu,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV