Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Óttast um yfir 1.000 úkraínska stríðsfanga í Rússlandi

In this photo taken from video smoke rises from the Metallurgical Combine Azovstal in Mariupol, in territory under the government of the Donetsk People's Republic, eastern Ukraine, Tuesday, May 3, 2022. (AP Photo)
 Mynd: AP - RÚV
Um eða yfir 1.000 fangar hafa verið fluttir til Rússlands frá úkraínsku hafnarborginni Mariupol síðan Rússar lögðu hana í rúst og tóku þar öll völd. Áhyggjur af föngunum - sem ekki eru allir úkraínskir - fara vaxandi, en Rússar segja þá hafa verið flutta yfir landamærin „vegna rannsóknar.“

 

Talið að yfir 2.400 hafi gefist upp fyrir Rússum

Óþekktur fjöldi úkraínskra hermanna og þjóðvarðliða barðist gegn ofurefli rússneska innrásarhersins í Mariupol fram undir lok maímánaðar, flestir í skjóli hinnar risavöxnu Azovstal-stálverksmiðju undir hið síðasta.

Talið er að alls hafi yfir 2.400 úkraínskir hermenn lagt niður vopn og gefist upp fyrir Rússum frá því að þeir tóku að herða verulega tökin á borginni þar til þeir náðu henni endanlega á sitt vald.

Síðan þá hafa yfir 1.000 þeirra verið fluttir til Rússlands, þar sem þeir sæta rannsókn ákæruvaldsins samkvæmt rússnesku ríkisfréttastofunni Tass, sem vitnar í heimildarmenn úr dómskerfinu og varnarmálakreðsum.

Í þessum hópi gætu verið fleiri en 100 erlendir málaliðar, samkvæmt sömu heimildum. Þá stendur til að flytja enn fleiri úkraínska stríðsfanga frá borginni til Rússlands.

Saka úkraínsku hermennina um að vera nýnasista

Samkvæmt þýska tímaritinu der Spiegel telja Rússar fjölda nýnasista í hópi fanganna. Varnarlið Mariupol samanstóð að hluta til af hinum umdeildu Azaov-hersveitum, sem stofnaðar voru af öfga-þjóðernissinnum, og tilheyra úkraínska þjóðvarðliðinu en ekki Úkraínuher.

Notuðu stjórnvöld í Moskvu þá herdeild óspart sem dæmi um það sem þeir hafa kallað nasistavæðingu Úkraínu og beita fyrir sig til að réttlæta innrásina í landið. Jafnframt hafa þau iðulega fullyrt að nýnasistar séu fjölmennir í Úkraínuher, án þess þó að færa á það nokkrar sönnur.

Stjórnvöld í Úkraínu óttast mjög um afdrif hinna handteknu úkraínsku hermanna og telja Rússa munu pynta þá og jafnvel lífláta.