Norska félagsliðið Vipers frá Kristiansand vann í gær kvennakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta annað árið í röð. Vipers vann hið geysi sterka Györi frá Ungverjalandi í úrslitaleiknum í gær, 33-31. Það eru þó ekki aðeins norskir leikmenn á borð við stjörnuna Noru Mørk sem leika með Vipers. Tékkneska landsliðskonan Marketa Jerabková var markahæst hjá Vipers með sjö mörk og samlanda hennar Jana Knedilkova var einnig öflug. Þá er hinn öflugi Svíi Isabelle Gulldén líka hjá Vipers ásamt þekktum norskum leikmönnum á borð við Katrine Lunde, Mörtu Tomac og Silje Waade.
Norsku landsliðskonurnar Stine Bredal Oftedal, Silje Solberg og Veronica Kristiansen fögnuðu hins vegar ekki, enda leikmenn Györi sem tapaði úrslitaleiknum fyrir Vipers.
Sagosen lengi frá
Verri tíðindi eru hins vegar af Sander Sagosen helstu stjörnu norska karlahandboltans. Sagosen virðist hafa brotið ökklann á sér illa snemma í leik Kiel á móti Hamburg í þýsku deildinni í gær.
Warning. Ugly pictures
Nightmare news for THW Kiel? Sander Sagosen just suffered what looked like a severe injury just before the EHF Champions League Final4. He has left the arena.
: TV3 Sport#handball pic.twitter.com/S8RpvULOyy— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) June 5, 2022
Fyrstu fréttir af meiðslum Sagosen eru á þá leið að hann verði frá keppni í 6-8 mánuði. Þar með er hæpið að hann verði með norska landsliðinu á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar, enda sex mánuðir núna þar til mótið hefst.
Warholm meiddist líka
Annar þekktur og vinsæll íþróttakappi í Noregi er hlauparinn Karsten Warholm. Þau óvæntu tíðindi urðu á Demantamótinu í frjálsíþróttum í Rabat, höfuðborg Marokkó í gær, að Karsten Warholm sigraði ekki í 400 metra grindahlaupinu. Það kom reyndar ekki til af góðu.