Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Trump: „Líklega væri réttast að hengja Pence“

05.06.2022 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseti er talinn hafa sagt að „líklega væri réttast að hengja Pence,“ við þáverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, Mark Meadows.

Þetta kemur fram í nýrri grein Maggie Haberman, blaðakonu New York Times, sem vinnur að bók um Trumptímann í Hvíta húsinu og greint er frá á vef The Guardian.  

Tim Giebel yfirmaður öryggisvarða, sem gæta áttu öryggis Mike Pence þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, var varaður við því að Trump ætlaði að snúast gegn eigin varaforseta.

Haberman segir að það hafi verið Marc Short starfsmannastjóri Pence, sem hafi varað Giebel við þessum meintu hótunum Trump, degi fyrir árásina á þinghúsið í Washington 6. janúar 2021. 

Trump vildi stöðva Öldungadeildina

Trump er jafnframt talinn hafa lagt á ráðin um að Pence myndi stöðva staðfestingu Öldungadeildarinnar á niðurstöðu forsetakosninganna 2020 og snúa úrslitunum Trump í vil.

Haberman upplýsir að meðal þess sem nota átti til að beita Pence þrýstingi var að halda eftir fjármunum sem Pence átti rétt á vegna valdaskiptanna, aðstoð við að flytja frá Washington og koma sér fyrir á nýjum stað.

Hún segist hafa heimildir fyrir því að Pence hafi alvarlega íhugað að fallast á kröfu Trump, en komist að þeirri niðurstöðu að hann sem varaforseti, hefði ekki vald til þess að stöðva staðfestingu Öldungardeildarinnar.

„Hengjum Mike Pence“

Vitni sem komu fyrir þingnefnd sem nú rannsakar árásina á þinghúsið, sögðu að Trump hefði sagt Mark Meadows þáverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, að „líklega væri réttast að hengja Pence.“ Vitnin sögðu nefndinni að ekki hafi verið fyllilega ljóst hvort Trump hafi verið að grínast þegar orðin voru látin falla.

Á meðan árásinni stóð var gálgi með snöru reistur á lóð þinghússins og mótmælendur heyrðust hrópa „hengjum Mike Pence.“ Trump hefur síðar varið orðanotkunina í samtali við annað fjölmiðlafólk og er sagður samþykkur hrópum um að réttast væri að hengja varaforsetann.

Þegar óeirðaseggirnir brutust inn í þinghúsið, neitaði Pence að yfirgefa bygginguna og sagðist „ekki vilja láta hinn frjálsa heim verða vitni að flótta hans úr þinghúsinu. Ég fer ekki fet,“ sagði Mike Pence.