Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Sárast að Danir skammist sín ekki meira“

04.06.2022 - 13:36
Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson / RÚV
Þrír danskir stjórnmálaflokkar hafa krafist rannsóknar á því hvers vegna getnaðarvörninni lykkjunni var komið fyrir í um 4500 grænlenskum unglingsstúlkum á sjöunda áratugnum. Lykkjuhneykslið var rætt í Vikulokunum á Rás1 í morgun. Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, segir grunnt á rasisma í dönsku samfélagi gagnvart Grænlandi og Grænlendingum.

Stefán, Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, voru gestir Sunnu Valgerðardóttur í Vikulokunum í dag. Þar var farið yfir fréttir vikunnar og meðal annars rætt lykkjuhneykslið sem vakti mikla athygli í vikunni. 

Stjórnvöld í Danmörku hafa lítið tjáð sig um málið en hafa fallist á að heilbrigðisráðuneytið muni skoða það í samstarfi við grænlensk heilbrigðisyfirvöld. Ingibjörg sagðist orðlaus yfir þessu. „Þetta er gríðarlegt inngrip inn í líf einstaklinga og að stjórnvöld skuli leyfa sér þetta, ég er bara slegin,“ sagði Ingibjörg. Sigmar sagði þetta vekja hugrenningatengsl við ýmis mál, meðal annars gömul mál hér á landi. „Það má aldrei vera einhver viðleitni til þess að gera lítið úr eða varpa ábyrgð á tíðaranda eða eitthvað þess háttar, menn verða að hreinsa upp, rannsaka og skoða og eftir atvikum bæta fólki skaða eða biðjast velvirðingar. Það þarf að gera upp þessi mál því annars er þetta auðvitað áfram einhvers konar sár í þjóðarsálum.“

Stefán sagði að heilbrigðiskerfin á þessum árum hefðu tekið sér mikið vald. Hér á landi hafi verið gerðar ófrjósemisaðgerðir á seinfærum konum án þeirra vitundar. Það þurfi að gera það upp hér á landi. En þetta mál á Grænlandi sé hluti af samskiptasögu Dana og Grænlendinga sem hafi verið með þessum hætti mjög lengi. „Og það sem manni finnst líka dálítið merkilegt er hvað meginstraumsumræðan í Danmörku er róleg yfir því, það finnst manni eiginlega sárást að Danir skammist sín ekki meira en raun ber vitni í þessu. Og þó það sé ekki fallegt að segja þetta í útvarpi allra landsmanna þá finnst mér vera mjög grunnt á bara verulegum rasisma í dönsku samfélagi gagnvart Grænlandi, þeir líta ekki á þetta sem eitthvað samfélag sem nái máli. Þeir eru bara mjög uppfullir af því að þetta geti ekki fúnkerað án danskrar aðstoðar og sjá svona litla ástæðu til afsökunarbeiðna,“ sagði Stefán Pálsson.