Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Senn fer vorið á vængjum yfir flóann

Mynd: Paxal / Face

Senn fer vorið á vængjum yfir flóann

03.06.2022 - 14:00

Höfundar

Það er nóg af sumarslögurum í Undiröldunni að þessu sinni þar sem JóiPé sendir frá sér sitt fyrsta sólóefni og Góss flautar inn sumarvertíðina. Önnur með nýtt efni að þessu sinni eru Eyjapeyinn Júníus Meyvant, Prins Póló, Gummi Tóta, Draumfarir ásamt Friðriki Dór og Valgerður Guðnadóttir.

Júníus Meyvant - Guru

Lagið Guru er það nýjasta frá Júníusi Meyvant og er að sögn listamannsins töluvert frábrugðið eldra efni hans. Textinn tekur síðan á því sanna og því falska meðan taktur og tilfinning lagsins byggist á endurtekningu sem róar hugann og leiðir hlustandann í núið.


JóiPé ásamt Pally - Face

Lagið Face er fyrsta lag sem JóiPé sendir frá sér af væntanlegri plötu sem verður hans fyrsta sólóplata. Með Jóa í laginu er vinur hans Páll Orri Pálsson sem kallar sig PALLY. Lagið varð til eina sumarnótt í fyrra en þá hittust þeir vinirnir með það markmið að gera lag sem kemur manni í gott skap.


Prins Póló - Málning þornar

Nýjasta plata Prins Póló, Hvernig ertu, sem kom út í síðustu viku er plata vikunnar á Rás 2. Upphafslag hennar sem hefur hljómað töluvert í vikunni er lagið Málning þornar þar sem Svavar Pétur sýnir á sér teknóhliðina.


Gummi Tóta - Íslenska sumarið

Guðmundur Þórarinsson eða Gummi Tóta vill meina að hann mæti með sumarið með sinni nýjustu smáskífu. Gummi er atvinnufótboltamaður og hefur spilað erlendis í mörg ár. Hann er spenntur fyrir því að fá að upplifa íslenskt sumar í fyrsta skipti í áratug.


Draumfarir ásamt Friðrik Dór - Nær þér

Nær þér er nýtt lag frá popp-dúóinu Draumförum ásamt Friðriki Dór. Lagið vilja þeir meina að sé algjör sumarbomba en það er eftir þá Birgi Stein Stefánsson, Ragnar Már Jónsson og Friðrik Dór. Draumfarir hafa gefið út mörg lög síðastliðin tvö ár sem sum hafa ratað inn á vinsældarlista útvarpsstöðva og streymisveitna eins og t.d. Ást við fyrstu Seen sem var mikið tekið.


Góss - Vor við flóann

Vorboðinn ljúfi Góss hefur sent frá sér enn einn nostalgíu-slagarann og að þessu sinni er það Vor við flóann sem þau taka snúning á. Lagið er erlent og sum þekkja það í flutningi Ragga Bjarna en textinn er eftir Jón Sigurðsson. Tríóið Góss er sem fyrr skipað þeim bræðrum Sigurði og Guðmundi Óskari Guðmundssonum og söngkonunni Sigríði Thorlacius.


Valgerður Guðnadóttir - Hvutti út í glugga

Tónlistarkonan Valgerður Guðrún Guðnadóttir hefur sent frá sér útgáfu af laginu Hvutti út í glugga sem flestir ættu að kannast við. Lagið er erlendur vals en textinn er eftir Þorgils Björgvinsson.