Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fær bætur vegna dvalar í sóttvarnarhúsi

03.06.2022 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: ÞórÆgisson - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða konu 60.000 krónur í miskabætur vegna dvalar í sóttvarnarhúsi. Konan kom til Íslands með flugi frá Póllandi 2. apríl 2021 og var gert að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi í Þórunnartúni. Hún á lögheimili á Íslandi og vildi vera í sóttkví heima hjá sér.  

Konan fékk að fara heim 5. apríl eftir að dómur féll í málum annars fólks sem átti lögheimili á Íslandi en hafði verið skyldað til að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þá var úrskurðað að reglugerð, um að skylda alla sem kæmu frá ákveðnum löndum til dvalar í sóttkvíarhúsi, hefði gengið lengra en stoð væri fyrir í lögum.

Dómurinn nú sneri því að bótum fyrir óheimila frelsisskerðingu dagana annan til fjórða apríl. Ekki var ágreiningur um hvort konan hefði átt að sæta sóttkví heldur hvar henni skyldi framfylgt. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að dvöl í sóttvarnahúsi yrði að teljast þungbærari en sóttkví í heimahúsi og því yrði að vera skýr heimild til að framfylgja slíkri ráðstöfun. 
 

 

 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir