Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Varnarmál standi og falli ekki með ESB-aðild

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra telur stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum ekki standa og falla með Evrópusambandsaðild. 

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi spurði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, utanríkisráðherra hvort ráðuneyti hennar búi sig undir breytta heimsmynd sem blasað gæti við ef Noregur gerist aðili að Evrópusambandinu (ESB). Samtalið um aðild að ESB sé hafið að nýju í Noregi og velti Hanna Katrín því vöngum yfir því hvort möguleg innganga Noregs í ESB myndi veikja stöðu Íslands í varnarmálum, þar sem landið yrði þá eina Norðurlandið utan ESB. Benti hún jafnframt á að mikill meirihluti Dana hafi greitt atkvæði með því að leggja niður undanþáguákvæði um þátttöku í varnarsamstarfi ESB. 

„Það mun breyta samstarfi þjóða þegar Finnar og Svíar vonandi sem allra fyrst ganga inn í Atlantshafsbandalagið. Við finnum fyrir því að umræðan um ESB hefur að einhverju leyti breyst. Án þess að ég ætli að fara að mælast sérstaklega til þess eða ráðleggja þeim sem tala fyrir aðild að Evrópusambandinu þá held ég að það væri gagnlegra að halda sig við aðra þætti en að það skipti miklu máli í öryggis- og varnarsamstarfi, í því samhengi, að vera aðilar að Evrópusambandinu. Ég segi bara: Megi Evrópusambandinu ganga sem best í endurskoðun sinni í varnar- og öryggismálum,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Staðreyndin sé þó sú að Evrópusambandsríkin innan Atlantshafsbandalagsins komi að borðinu með innan við 20% af fjármögnun ríkja Atlantshafsbandalagsins þegar komi að varnartengdum verkefnum. Ríki utan Evrópusambandsins komi aftur á móti að borðinu með eftirstandandi 80%.

„Við erum stofnaaðilar að lang öflugast öryggis- og varnarsamstarfi í heimi. Þar gengur okkur vel. Síðan erum við með varnarsamning við öflugasta ríki á því sviði í heimi sömuleiðis, sem eru Bandaríkin. Út frá öryggis- og varnarhagsmunum erum við því í góðum höndum og erum í raun kannski frekar að leita leiða til þess að taka frekari þátt. Hagsmunum okkar er vel borgið innan þess samstarfs sem við erum nú í og út frá Evrópusamstarfi erum við með EES-samninginn þar sem hagsmunum okkar er betur borgið en með aðild að Evrópusambandinu og öllu sem því fylgir,“ sagði utanríkisráðherra.

Netvarnir einnig óháðar ESB

Hanna Katrín steig í kjölfarið á ný í pontu og beindi sjónum sínum að netöryggismálum. 

„Eitt af því sem Danir munu styrkja nú til muna með því að taka þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins er aðstoð í netöryggismálum. Við vitum að stríð framtíðarinnar munu verða háð með öðrum þætti en við þekktum áður. Við erum þegar farin þangað og við vitum líka að eitt af brennandi verkefnum okkar fram undan er að tryggja varnir okkar í netöryggismálum. Þetta er verkefni sem við munum ekki ráða við ein okkar liðs og eins og staðan er í dag erum við býsna berskjölduð ef við yrðum fyrir barðinu á slíkum árásum, sagði Hanna Katrín og spurði Þórdísi Kolbrúnu hvort aukið samstarf við ESB gæti bætt varnir Íslands, þó svo að hún hafi ekki mikið álit á Evrópusambandinu sem varnarbandalagi að öðru leyti.

Þórdís Kolbrún sagði hárrétt að netöryggismál séu vaxandi verkefni fyrir öll ríki og það sé einmitt þess vegna sem Ísland eigi í miklu samstarfi bæði í Tallinn og Helsinki. Það samstarf skipti miklu máli og Ísland fái margfalt meira út úr slíku samstarfi en landið leggi sjálft inn. 

„Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni að við getum ekki sem eitthvert eyland byggt upp alla þá þekkingu sem við þurfum og við eigum að gera það í samstarfi aðrar þjóðir. Evrópusambandsaðild kemur því máli ekkert við. Við erum í fullum færum um að efla slíkt samstarf og taka þátt í því, hvort sem það eru öndvegissetur eða annað, án Evrópusambandsaðildar. Varðandi ákvörðun Dana þá erum við náttúrlega ekki með neitt sambærilegt hér þannig að það þarf enga þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkar breytingar vegna þess að þetta er ekki vandamál hér. En ákvörðun Dana breytir engu um norrænt varnarsamstarf eða samstarfið innan NATO, þannig að það sé nefnt. Þannig að jú, það er verkefni fyrir okkur að bæta okkur frekari í netvörnum, en það getum við svo sannarlega gert án Evrópusambandsaðildar,“ sagði utanríkisráðherra.