Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telur fjárlagaliðinn í kvikmyndafrumvarpi ófullnægjandi

02.06.2022 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist hafa vakið athygli á því í ríkisstjórn að fjárlagaliðurinn í frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar væri ófullnægjandi. Þetta sagði ráðherra við upphaf þingfundar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi.

Fram hefur komið að fjármálaráðuneytið gagnrýnir frumvarpið í bréfi til atvinnuveganefndar varðandi að það sé ófjármagnað og samráð hafi skort við samningu þess. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sem spurði fjármálaráðherra hvort ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við frumvarpið áður en það var afgreitt úr ríkisstjórn.

Bjarni hóf svar sitt við fyrirspurn Sigmundar á að benda á að á undanförnum árum sé búið að gjörbreyta verklaginu við kostnaðarmat frumvarpa. „Nú er það þannig að það eru fagráðuneytin sem sjálf bera alla ábyrgð á því að kostnaðarmeta framkomin mál. Þó er sú regla viðhöfð að fjármálaráðuneytið hafi að jafnaði tvær vikur til þess að fara yfir mat fagráðuneytanna. Þó að þær tvær vikur hafi ekki gefist í þessu tiltekna máli þá koma samt sem áður fram ábendingar frá fjármálaráðuneytinu um að gjaldaliðurinn, sem í þessu tilviki er vistaður í þessu fagráðuneyti, hann gerði ekki ráð fyrir útgjöldunum sem myndi reyna á ef frumvarpið yrði samþykkt,“ sagði Bjarni.

Það hafi aftur á móti ekki verið tekið tillit til þess í greinargerð eins og hún fór í gegnum ríkisstjórnina. „Þar vakti ég reyndar athygli á því. Síðan fer málið hingað til þingsins og það kemur upp til embættismanns í ráðuneytinu fyrirspurn um það hvernig þessu sé háttað. Þá er ekki annað eðlilegt en að menn bregðist við. Í raun og veru snýst þessi umræða eingöngu um þetta hér; er á útgjaldaliðnum, sem er vistaður í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, nægilegt svigrúm til þess að fullnægja þeirri þörf sem mun skapast verði frumvarpið samþykkt sem lög?“ 

Þetta er að sögn fjármálaráðherra eina spurningin sem skipti máli og fjármálaráðuneytið hafi verið að vekja athygli á því. „Ráðuneytið var ekki með neinar efnislegar athugsemdir við þetta mál, bara vekja athygli á því að útstreymið til að endurgreiða kvikmyndaframleiðendum mun stöðvast á því að það verði ekki fjárheimildir á fjárlagaliðnum. Mönnum kann að þykja þetta óeðlilegt en það getur auðvitað gerst að það komi upp ólík sjónarmið um það hvort fagráðuneytið eða fjármálaráðuneytið hafi rétt fyrir sér. Ég er reyndar í engum vafa um það að fjárliðurinn er ófullnægjandi,“ sagði Bjarni að lokum.