Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tæplega 200 í ólöglegri dvöl hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Alls eru 169 flóttamenn, 129 karlar og 40 konur, hér í ólögmætri dvöl og þurfa að yfirgefa landið samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í gær í fór yfir stöðu þeirra sem til stendur að vísa úr landi.

Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins. Af þessum 169 tilheyra 53 einstaklingar fjölskyldum. Þá eru 22 börn undir 18 ára aldri en fullorðnir eru 147. Öll þau börn sem eru á skólaskyldualdri hafa gengið í skóla á meðan þau hafa dvalið á landinu.

Fimm börnum vísað úr landi

Á fundinum kom einnig fram að 98 þessara einstaklinga eru á leið til ríkja sem erfitt hefur reynst að senda til vegna þeirra skilyrða sem löndin gera og vegna erfiðleika við að fá útgefin ferðaskilríki. Auk þess séu nokkur lönd sem ekki er hægt að senda til vegna nálægðar og áhrifa frá stríðinu í Úkraínu. 

Ríkislögreglustjóri vinnur nú að því að senda 71 einstakling sem eftir er úr landi. Fari fólkið ekki sjálfviljugt sér stoðdeild ríkislögreglustjóra um að fylgja því úr landi. Alls eru fimm börn í þessari stöðu.

Flestir sendir til Grikklands

36 eiga að fara til Grikklands, 7 til Albaníu og 6 til Ítalíu. 22 eiga að fara til annarra landa en nákvæmari tölur eru ekki gefnar vegna persónuverndarsjónarmiða segir á vef Stjórnarráðsins.